149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:43]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara fyrri spurningunni held ég að það sé nægilega vel um þetta búið í lögunum. Rætt er um virka kolefnisbindingu og lögð áhersla á sjálfbærni í skógrækt. Ég tel að það hver hlutföllin eru á hverjum stað sé auðvitað líka háð vaxtarskilyrðum og ótal öðrum hlutum sem skógsérfræðingar eru sérfræðingar í. Ég á von á því að þegar verður farið út í að ákvarða hvort hér skuli vera birkiskógur eða blandaður skógur eða eingöngu barrskógur eða hvaðeina verði það gert á faglegan máta og ég tel ekki að það þurfi að vera í lögunum.

Hvað snertir sameiningu stofnana ætlaði ég reyndar að ræða það undir næsta lið í kvöld, en látum það vera. Ég hef alltaf verið því fylgjandi að auðlindanýting á landi — nú er ég ekki að tala um hefðbundinn landbúnað eða allt sem heitir ræktun matvæla heldur allt annað, þ.e. skógrækt, landgræðslu, að endurheimta landgæði, námarekstur, friðuð svæði, þjóðgarða og annað slíkt — sé undir einni auðlindastofnun sem er rekin á vegum ríkisins.

Hitt er svo annað mál að að þeim málum fram settum er það þannig að núna gefst ekki tími til að vinna alla þá vinnu sem þarf til að svo geti farið. Það er margra ára vinna að mínu mati. Nú gildir að uppfæra þau tvennu lög sem við ræðum. Hitt er dálítið framtíðarvinna sem ég vona að taki svolítið fyrsta skref með tilvonandi þjóðgarðastofnun, eða hvað við köllum hana, sem er í burðarliðnum.