149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

landgræðsla.

232. mál
[23:09]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Hér ræðum við frumvarp til laga um landgræðslu. Vil ég þakka ráðherra umhverfis- og auðlindamála fyrir það. Landgræðsla á Íslandi á sér svo sem ekki margra alda sögu, frekar nokkurra tuga ára sögu þar sem menn byrjuðu að hlúa að landinu og reyna að ná því til baka sem áður hafði farið út í veður og vind af völdum veðurs, eldgosa og ofnotkunar á landi, hvort sem það var með nytjum á skógi eða beit búfjár.

Ég er einn af þeim sem eru miklir áhugamenn um landgræðslu og hef stundað hana töluvert í starfi mínu. Í því ljósi er vert að nefna það varðandi verkefnið Bændur græða landið, að um 660 bændur, ef ég man rétt, eru í því verkefni, fyrir utan þau verkefni sem tilheyra Landbótasjóði sem bændur koma einnig að.

Ef við horfum á hlutina eins og þeir eru, svona til framtíðar, og tengjum þá þeim efnum sem snúa að losun og endurheimt varðandi kolefni er það mín skoðun, og væntanlega er ráðherra sammála mér í því, þá er það okkar öflugasta tæki í því að jafna, eins og maður segir, í þessu kolefnisbókhaldi okkar. Að bæta enn meira í landgræðslu. Þar eigum við gríðarlegt verk fyrir höndum.

Það sem okkur hefur skort þegar kemur að þessum málaflokki er fyrst og fremst fjármagn. Það skortir ekki viljann hjá okkur að græða landið, en fyrst og fremst er það fjármagnið sem okkur hefur skort og vonast ég til þess að ráðherra geti upplýst okkur aðeins nánar um það hér á eftir hversu mikið fjármagn hann sér fyrir sér í þessum málaflokki til þess að við getum tekið verulega á þar, því að í umræðu áðan vorum við að fjalla um skógrækt. Þegar kemur að landgræðslu getum við verið mun fljótari að loka sárunum. Við getum síðan jafnvel plantað skógi þar í framtíðinni og þar af leiðandi á skógurinn auðveldara með að vaxa. Ég held við þurfum að hugsa landgræðslu og skógrækt mikið í samhengi. Þetta eru í sjálfu sér afskaplega keimlík og skyld verkefni.

Ég var að renna yfir lauslega skýrslu um loftslagsbreytingar, og ekki svo sem kominn alveg til enda í henni. Hún er nýkomin út og verður hér væntanlega til umræðu á fimmtudaginn. Skýrslan á fyrst og fremst að segja okkur hvaða vá stendur fyrir dyrum. En vissulega eru líka tækifæri í því að loftslag fari hlýnandi. Það kemur meira að segja fram þar að við hverja 1°C sem hlýnar hraðast vöxtur um eina 16 daga, þ.e. við lengjum sumarið og vaxtartímann um 16 daga. Það sjáum við sem höfum starfað við landgræðslu hversu miklu munar á hverju ári í því hvenær vorar; það vorar fyrr og haustið kemur síðar, hversu mikið hraðar gengur að loka sárinu.

Ég velti einnig fyrir mér í ljósi þess sem er í þessu frumvarpi og langar að koma inn á það hér, að þó að kóróna sköpunarverksins, sauðkindin, sé nú yfirleitt rauði þráðurinn í því sem er fjallað um í þessum sal, á líka við um þegar við veltum fyrir okkur hugtakinu sjálfbær landnýting og þess háttar. Ég stoppaði aðeins við 12. gr., varðandi ósjálfbæra landnýtingu og landbótaáætlanir. Síðan varðar 25. gr. um stjórnvaldssektir. Ég geri svo sem ekki sérstakar athugasemdir við að hægt sé að tugta menn aðeins til ef þeir standa sig ekki.

En það eru fleiri aðilar og fleiri skepnur sem nýta landið. Ég velti því þó fyrir mér í þessu samhengi, ef það er einungis það sem 25. gr. á við um 12. gr., að ég get ekki annað séð en að þetta sektarákvæði eigi eingöngu við um það sem tengist landbúnaði, þ.e. þá landnýtingu og beitaráhrifum, þá væntanlega sauðkindina. En það eru fleiri sem nýta landið.

Við eigum afskaplega erfitt með að stjórna því hvar fugl lendir. Við þekkjum það alveg að það er gríðarlega mikill þungi í beit gæsa og álfta. Ég held að það sé ekki tekið með í reikninginn. Þetta á líka við um hreindýr. Í ljósi þessara sektargreiðslna þá geri ég mér grein fyrir því að það er afskaplega snúið að sekta gæsir, álftir og hreindýr. En við þurfum að taka það með í reikninginn þegar við veltum fyrir okkur ósjálfbærri landnýtingu. Vissulega getur hún haft áhrif þarna á líka, ég er ekki að firra sauðfjárbændur eða sauðkindina ábyrgð hvað það varðar, en við verðum að horfa á þetta líka.

Síðan komum við einnig að ferðamannastrauminum, bæði þar sem fólk gengur og ekur og nú er farið að færast í vöxt að menn ferðist um á hjólum, Buggy-bílum og alls konar farartækjum. Það hefur líka áhrif á land. Það þurfum við að passa. Ég vil beina því til ráðherra að taka það með, því að ég get ekki séð það í frumvarpinu sjálfu, að tekið sé á því ef við ætlum að reyna að stýra þeirri nýtingu, því að allt er þetta landnýting. Það er ekki bara beit, heldur nýtingin sem þarna er, hún hefur vissulega áhrif á framvindu gróðurs.

Varnir gegn landbroti. Einu sinni var til sjóður sem hét landbrotasjóður. Í umræðunni upp á síðkastið hefur verið sú vá sem stendur kannski fyrir dyrum varðandi gos í Kötlu og rætt um varnargarða í Mýrdal í því sambandi. Ég nefni þetta sem dæmi því að allt ber að sama brunni í þessum efnum. Þetta eru gríðarleg verkefni og stór og kosta mikla peninga. Það er líka einn þáttur sem við þurfum að taka til, þ.e. að betra er að fjármagna þetta af miklum krafti en að dreifa fjármagni um allt, eða, með leyfi forseta, með tittlingaskít hingað og þangað. Við þekkjum að Landbótasjóður eða landbrotasjóður var yfirleitt alltaf tómur og hefur yfirleitt verið fjárvana. Ef við ætlum að gera þetta af einhverju viti og einhverjum krafti þurfum við að fjármagna hlutina almennilega.

En annars gleðst ég yfir því að þessi umræða eigi sér stað og vona að þetta frumvarp gangi vel í þingheim og í einnig í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur öll að ganga vel um landið og hlúa að því.