149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:31]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, og hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessa þörfu umræðu. Það er vissulega boðið upp á iðnnám á Íslandi í dag. Hér á höfuðborgarsvæðinu er það fyrirferðarmest og svo á Akureyri, en minna er um það úti um landsbyggðina.

Vandinn sem við er að glíma er m.a. viðhorf til iðnnáms og hinn mikli kostnaður sem iðn- og verknám hefur í för með sér í skólakerfinu. Það er því ekki eðlilegur og almennur kostur í námsframboði allra framhaldsskóla, sem er bagalegt.

Viðhorf til iðn- og verknáms hefur ekki verið jákvætt um árabil og því þarf að breyta. Allt of margir nemendur horfa frekar til þess að taka stúdentspróf og fara í bóklegt háskólanám. Bóklegt langskólanám hentar ekki eða heillar alla þá sem velja þá leið, einstaklingum með myndræna hugsun og hæfileika til að skapa með höndum og huga, sem við þyrftum svo sannarlega á að halda í ýmsum iðn- og verkgreinum.

Námsframboð þess skóla sem nemendur eiga kost á í heimabyggð ræður stundum för. Því er nauðsynlegt að allir framhaldsskólar geti boðið upp á möguleika í iðnnámi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að skólakerfið og atvinnulífið vinni saman að því að renna styrkari stoðum undir iðn- og verkmenntun á Íslandi til að gera það eftirsóknarvert, áhugavert og góðan kost.

Einu sinni var boðið upp á iðnnám í flestum þáverandi gagnfræðaskólinn landsins, eins og komið var inn á áðan, og þá í samvinnu við iðnaðarmenn og meistara á hverjum stað. Slíkt fyrirkomulag, eða í einhverju slíku formi, í takt við okkar samfélagsgerð og nútímann, gæti verið lyftistöng fyrir námið og aukið áhuga ungs fólks ef aðgengi væri að því í heimabyggð, a.m.k. á fornámsstigi.

Það gæti líka verið styrkur fyrir atvinnulíf einstakra staða og staðfestu þeirra (Forseti hringir.) að hafa tök á iðngrein sem er góð fjárfesting og eykur möguleika á fjölbreyttum starfsferli, hvort sem um er að ræða rafvirkjun, hárgreiðslu, pípulögn eða hvað annað sem hugurinn girnist.