149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

starfsgetumat.

[10:40]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég og hv. þingmaður höfum áður rætt þetta mál hér í sal Alþingis. Ég held að það sé bara jákvætt. Hv. þingmaður veltir upp ákveðnum atriðum þarna. Það sem ég hef sagt í þessu máli stendur enn. Við erum í góðu samstarfi og samráði við hagsmunasamtök, Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp, og við aðila vinnumarkaðar við að reyna að gera breytingar sem miða að því að hvetja fólk til að taka virkari þátt í þessu góða samfélagi okkar.

Í þeirri vinnu höfum við horft til þeirra landa þar sem þessir hlutir hafa gengið vel, m.a. að hluta í Danmörku, að hluta í Svíþjóð. Þar eru hlutir sem hafa gengið vel. Það er lykilatriði í þessu að við viljum, til lengri tíma litið, að fólki sé gert kleift að taka virkari þátt í samfélaginu með því að nýta starfsgetu sína og að kerfið styðji við slíkt. Það er enginn að ana að neinu í því efni. Það er hins vegar verið að reyna að koma því á fót að við stígum það skref að byrja að vinna okkur í þessa átt. Það hefur enginn talað um að þetta eigi að taka gildi 1. janúar eða eitthvað slíkt. Það er gríðarlega mikilvægt að við förum inn í þessa vinnu af heilum hug og vinnum að því að gera þetta, ekki á neinum ofsahraða heldur á þeim hraða sem nauðsynlegur er til að undirbúa atvinnulíf, vinnumarkaðinn og samfélagið til að geta tekið við fólki sem hefur skerta starfsgetu, hvort sem er í skamman tíma eða til lengri tíma.

Allar aðgerðir miða að þessu. Ég held að þetta sé gríðarlega jákvætt. Ég held að það sé jákvætt ef okkur tekst að gera breytingar í þessa veru. Ég bind miklar vonir við að það geti tekist, enda eigum við í samtali við alla helstu aðila (Forseti hringir.) um þessi mál og munum gera það áfram. Ég vonast til þess að þegar niðurstaðan kemur verði hv. þingmaður mér sammála um að þetta verði jákvætt skref.