149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

jafnréttismál.

[11:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við erum sammála um að aðgerðir skipta kannski meira máli en orð. Þess vegna er búið að fullgilda Istanbúl-sáttmálann sem við ákváðum að verða aðilar að árið 2011 en tókst af einhverjum orsökum ekki að fullgilda fyrr en einmitt í ár, í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þess vegna erum við að setja niður heildstæða aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að takast á við kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi. Þess vegna erum við búin að fjármagna aðgerðaáætlun gegn kynferðisbrotum í réttarkerfinu en af einhverjum ástæðum tókst það ekki heldur fyrr en í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Þess vegna erum við núna búin að hafa samband við allar stofnanir okkar og óska eftir viðbrögðum um hvernig þær takast á við nákvæmlega það sem kom fram í #églíka-byltingunni; kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi. Þess vegna erum við að taka þátt í því með aðilum vinnumarkaðarins um hvernig við tökumst á við þetta.

Þetta eru aðgerðir, en ég fagna orðum hv. þingmanns sem lýsa líka hans einlæga vilja til að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Eins og ég sagði áðan erum við því miður allt of stutt á veg komin.