149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Geðheilbrigðismál hafa oft og iðulega mætt afgangi og gera það enn, því miður, þótt góður vilji standi til annars, sem betur fer. Af hverju er ég að segja þetta, frú forseti? Við skulum taka dæmi. Manneskja sem lendir í alvarlegu slysi eða greinist með alvarlegan, lífshættulegan, líkamlegan sjúkdóm fær líklegast ekki þau skilaboð að fara aftur heim, bíða svolítið og sjá hvernig verður, hvort hún verði ekki bara hressari, eða að deildin verði lokuð yfir sumartímann, langur biðlisti sé í úrræði og mæti í framhaldinu, að öllum líkindum, fordómum eða jafnvel útskúfun úr samfélaginu. Nei, sem betur fer er manneskju sem lendir í slíkum alvarlegum, lífshættulegum, líkamlegum veikindum líklegast mætt í heilbrigðiskerfinu okkar með viðbragðsáætlun og allt gert til að finna lækningu, þótt vissulega finnist sumum aldrei nóg að gert. Með þessu er ég ekki að segja að þeir góðu fagaðilar sem hafa sérhæft sig í geðheilbrigðismálum sinni ekki sjúklingunum sínum, langt því frá, heldur höfum við stjórnmálamenn og stjórnvöld sett þessi mál aftar í forgangsröðun allt of lengi.

Þó svo að ég fagni vissulega tilkomu skýrslu heilbrigðisráðherra og góðum orðum hennar og margt fínt sé að finna þar sakna ég þess að skýrslan endurspegli betur þann margþætta vanda sem blasir við þeim sem raunverulega þurfa á hjálp að halda, þar sem skjólstæðingar og fjölskyldur eru sendar fram og til baka innan kerfis og utan. Við höfum upplifað það, m.a. í heimildarþáttum í sjónvarpinu á nýliðnum dögum. Og það er jafnvel stundum rifist um hver eigi að borga reikninginn. Þetta sjáum við líka. Stundum er leitin að hjálp það flókin að einstaklingar gefast upp á því að leita hjálpar innan kerfisins. Við því þarf að sporna. Skortur á ábyrgð og óskýrt ferli flækist fyrir. Útgangspunkturinn verður að vera einstaklingurinn sjálfur og þarfir hans. Það þarf að leysa upp þessa endalausu múra þar sem kerfin tala ekki saman.

Að mínu mati er mikilvægt að til séu með þessu mælanlegar tölur um árangur á þessu sviði þannig að haldið verði áfram að gera nákvæmlega það sem tekist hefur vel og þora líka að segja að við hættum við það sem gengur hreinlega ekki upp. Breytt nálgun og aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla ætti að mínu mati að vera algjört forgangsmál.

Við vitum að einstaklingar á aldrinum 18–25 eru í hvað mestri hættu þegar kemur að andlegum veikindum. Fimmta hver kona á aldrinum 18–25 ára mælist hér á landi með þunglyndiseinkenni. Algengasta dánarorsök íslenskra karlmanna á sama aldri er sjálfsvíg eða fíknitengd.

Í nýrri skýrslu embættis landlæknis kemur fram að um 9% ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs einhvern tímann á ævinni. 46.266 einstaklingar leystu út þunglyndislyf á Íslandi árið 2016, sem er um 22% aukning frá árinu 2012. Rúmlega þriðjungur háskólanema á Íslandi mælist með miðlungs eða alvarleg einkenni þunglyndis, yfir 4.000 þeirra. Og um 20% nemenda mælast einnig með kvíðaeinkenni. Stærsti hluti örorkubóta er greiddur vegna andlegrar örorku.

Ég vil einnig geta í þessu samhengi að á sjúkrahúsið Vog innritast sex sjúklingar á dag að meðaltali alla daga ársins en ríflega 600 manns eru þar nú á biðlista. Bara á þessu ári hafa síðan 27 einstaklingar yngri en 40 ára látið lífið með greiningu á fíknisjúkdóm. Við blasir að stórefla þarf fyrsta viðkomustað hver sem hann er og tryggja öllum viðeigandi aðstoð. Það er lífsnauðsynlegt.

Opin umræða um málaflokkinn síðustu misserin hefur skilað fleiri stöðugildum sálfræðinga innan háskóla, framhaldsskóla og í heilsugæslu og myndað grundvöll fyrir þá áætlun sem nú er til umræðu, sem er fagnaðarefni. En aðgengi er samt sem áður ekki tryggt í núverandi kerfi og það er áhyggjuefni.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu telja um 33% Íslendinga sig ekki hafa efni á geðheilbrigðisþjónustu og á þetta sérstaklega við um ungt og tekjulágt fólk. 10–15 meðferðartímar hjá sálfræðingi kosta líklega á bilinu 120.000–220.000 kr. Fjöldi einstaklinga neyðist til að neita sér um þessa lífsnauðsynlegu þjónustu vegna fjárskorts. Það leiðir til umfangsmeiri vandamála og kostnaðarmeiri úrræða til að bregðast við þeim vandamálum seinna meir. Þetta vitum við. Þó svo að verið sé að auka úrræðin í heilsugæslunni eru þar einnig langir biðlistar, auk þess sem ekki er víst að þar séu nákvæmlega þau úrræði sem henti hverju sinni fyrir skjólstæðinginn. Hvaða skilaboð eru síðan stjórnvöld að senda til almennings þegar almenn sálfræðiþjónusta er ekki niðurgreidd í gegnum Sjúkratryggingar Íslands líkt og önnur nauðsynleg heilbrigðisþjónusta þegar fíknigeðdeild og meðferðarheimili eru lokuð yfir sumartímann vegna fjárskorts og þegar þrengt er að fjármagni þeirra frjálsu félagasamtaka sem hafa sinnt málaflokknum af alúð, eins og hjá Hugarafli, Rauða krossinum og SÁÁ?

Ég velti einnig fyrir mér hvort þetta hökt við að leysa málin sé tengt því að stjórnvöld vilji ekki horfast í augu við að krafa um aukna heilbrigðisþjónustu á þessu sviði verður ekki eingöngu leyst með opinberu framtaki heldur í gegnum fjölbreyttar leiðir í samvinnu við sjálfstætt starfandi aðila svo heilbrigðisþjónustan okkar verði þannig að fólki með alls konar sjúkdóma og á biðlistum verði sinnt

Við hljótum öll að sjá mikilvægi þess sem felst í að gera betur á öllum stigum, hvort sem við skoðum að efla forvarnir, úrræði, sveitarstjórnarstigið, skólana, meðferðarúrræðin eða einfaldlega það að við getum sagt fólki að samfélagið sé tilbúið til að taka á móti og við því þegar það er búið að vera í meðhöndlun og meðferð. Mér finnst það a.m.k. augljóst.

Með aukinni áherslu á geðheilbrigðismál tækist okkur þó fyrst og fremst að bjarga mannslífum. Það eitt og sér ætti að vera rík ástæða til að grípa til aðgerða. Hver króna sem varið er í þennan málaflokk skilar sér margfalt til baka, en það er stundum eins og kerfið sjálft og fjármunir sem fylgja í heilbrigðiskerfið fari þangað sem þægilegast er að setja upp excel-skjalið í stað þess (Forseti hringir.) að fjárfesta í lausnum við sjúkdómum sem hafa, frú forseti, verið allt of lengi undir yfirborðinu. — Ég ætla að taka meiri tíma, (Forseti hringir.) næsti þingmaður fyrir Viðreisn mun taka minni tíma í skýrsluumræðuna, við skiptum því þannig á milli okkar.

Það sem ég er að segja er að kannski er auðvelt fyrir kerfið að henda bara fjármununum á þann stað, þ.e. inn í þetta blessaða excel-skjal eða á þau svið sem er einfaldlega þægilegt að reikna út af því að það er allt svo fyrirsjáanlegt. Við erum að tala um geðsjúkdóma. Þeir eru ekki endilega fyrirsjáanlegir nema það að við vitum að þeir hafa valdið ómældum sársauka og skaða fyrir fólkið sjálft, svo ég tali ekki um íslenskt samfélag sömuleiðis.

Það er að sjálfsögðu undir okkur komið að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa á því að halda, líka þegar kemur að geðsjúkdómum. Það er því á ábyrgð okkar stjórnmálamanna að forgangsraða og tryggja fjármagn í málaflokkinn og leggja hönd á plóg við að létta þeim sjúklingum lífið og tryggja þeim betri lífsgæði.

Ég er sannfærð um, frú forseti, að við getum gert betur þvert á flokka til að mæta þessum vanda. Við í Viðreisn erum a.m.k. reiðubúin til að styðja ráðherra með ráðum og dáð til að svo verði því að þetta er vandi sem ekki er hægt að bíða með að leysa og vona svo að hann hverfi bara með tímanum. Það er einfaldlega ekki nóg að við séum öll ofboðslega meðvituð um hversu alvarlegt ástandið er hér á landi, heldur þurfum við líka sem erum hér inni að efna öll fallegu loforðin og öll fallegu fyrirheitin sem lengi hafa einkennt pólitíska umræðu um geðheilbrigðismál. Það væri a.m.k. ágætisbyrjun.