149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[15:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og hennar yfirferð á henni. Við erum að ræða málaflokk sem varðar okkur öll. Geðheilbrigðismál og geðheilsa eru ekki einkamál þeirra sem kunna að eiga í svona sjúkdómum eða eiga ættingja sem hafa fengið slíka sjúkdóma. Þetta er vandamál okkar allra, þetta er vandamál samfélagsins.

Mig langar að koma sérstaklega inn á hóp í geðheilbrigðiskerfinu sem hefur lítið verið rætt um hér í dag, eldra fólk. Eldra fólk er að því leyti til alveg eins og við hin að það fær geðsjúkdóma. Það sem er kannski öðruvísi með eldra fólk en okkur hin er að þegar það er komið á fullorðinsár er það oft og tíðum búið að ganga með sína sjúkdóma áratugum saman. Því miður hefur það verið þannig í okkar heilbrigðiskerfi fram undir þetta að þegar eldra fólk er komið á háan aldur mætir það fordómum, mætir því að það eru í rauninni, a.m.k. enn sem komið er, engin sértæk úrræði til fyrir geðfatlaða aldraða einstaklinga. Þetta er afar miður.

„Burtu með fordóma og annan eins ósóma,“ söng Pollapönk. Það má eiginlega segja að eldri einstaklingar lendi tvöfalt í fordómunum. Það er ekki einasta að það séu undirliggjandi ákveðnir fordómar í garð eldra fólks í samfélaginu heldur eru líka í þessu tilfelli fordómar gagnvart þeim sjúkdómum sem þeir kunna að hafa. Fordómar í garð geðsjúkdóma birtast í mörgu, til að mynda í því að við sem teljum okkur vera heilbrigð veltum því í sífellu fyrir okkur hvort ekki geti einhverjir aðrir en sérfræðingar í heilbrigðisþjónustu sinnt þessum einstaklingum. Við veltum því fyrir okkur hvort það sé ekki örugglega óþarfi að gefa fólki sem er með geðsjúkdóma meðul og við mörg í þessum sal, ég þar á meðal, förum með upphrópunum í fjölmiðla yfir því hvað við séum að „ausa miklu af geðlyfjum“ í eldra fólk. Undirliggjandi í orðræðunni, í því hvernig við tölum um hlutina, liggja fordómar okkar og fordómar þeirra sem fara af stað með umræðuna. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að maður vandi sig þegar maður talar um þennan sjúkdómaflokk vegna þess að það er sérstaklega áberandi að þeir sem eiga í hlut eru sjaldnast í stöðu til að verja sig í umræðunni. Við verðum að muna þetta.

Það er gaman að geta sagt frá því hér, svo þetta sé ekki tómt svartnætti og neikvæðni, að einmitt um þessar mundir er verið að vinna í því — mér er kunnugt um það — að stíga fyrstu skrefin í að útvega sérstök úrræði fyrir eldra fólk inni á hjúkrunarheimilum sem á við geðrænan vanda að stríða. Sú vinna er í heilbrigðisráðuneytinu akkúrat núna og ég vil meina að það sé til marks um að núna fylgi athafnir orðum þegar við tölum um að við ætlum að leggja sérstaka áherslu á þessu kjörtímabili á heilbrigðismál geðfatlaðra og geðsjúkra. Þetta skiptir allt máli og við verðum að stíga ákveðin skref, en við verðum líka að stíga gagnreynd skref.

Það er kannski seinasti punkturinn sem ég vil koma að, að detta ekki í þá gryfju að fá góða hugmynd, ýta henni af stað og ímynda sér að núna séum við búin að leysa vandann, heldur fara eftir bestu ráðum, leita upplýsinga eins og kemur fram að hefur verið gert í þessari skýrslu, fara eftir þeim og leggja síðan af stað í vegferð sem vafalítið verður löng en ef við vitum hvert við erum að fara eru meiri líkur á að við komumst á áfangastað.