149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

lyfjalög og landlæknir og lýðheilsa.

266. mál
[16:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu, sem samið var í velferðarráðuneytinu. Markmið þessa frumvarps er annars vegar að stuðla að betra aðgengi kvenna að kynheilbrigðisþjónustu ásamt því að efla slíka þjónustu og hins vegar að nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á sviði kynheilbrigðisþjónustu.

Til skoðunar hefur verið um nokkurt skeið að umræddar heilbrigðisstéttir fái leyfi til að ávísa hormónatengdum getnaðarvarnarlyfjum og var frumvarp þess efnis lagt fram árið 2012 en náði ekki fram að ganga. Eins og kunnugt er hafa lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, verið til endurskoðunar í ráðuneytinu og í því skyni er nú unnið annars vegar að gerð frumvarps til laga um þungunarrof og hins vegar frumvarps til laga um ófrjósemisaðgerðir.

Í gildandi lögum er m.a. kveðið á um að fólki skuli gefinn kostur á fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra. Það eru m.a. hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem annast þá fræðslu og ráðgjöf en þessar starfsstéttir hafa hingað til ekki haft heimild til að ávísa lyfjunum. Sú nefnd sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði og fól að vinna að heildarendurskoðun á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, gaf út samantekt í nóvember 2016 þar sem fram komu tillögur að breytingum á þessu sviði. Í þeirri samantekt kemur m.a. fram að þörf sé á því að standa vörð um kynheilbrigði fólks og að kynfræðsla og heilbrigðisþjónusta séu grundvallarþættir kynheilbrigðis. Jafnframt reifaði nefndin þær hindranir sem staðið gætu í vegi fyrir aðgengi að getnaðarvörnum og kynheilbrigðisþjónustu. Þetta frumvarp sem hér er mælt fyrir er liður í því að ryðja þeim hindrunum úr vegi.

Þá kemur fram í lyfjastefnu sem Alþingi samþykkti sem þingsályktun í mars í fyrra að stefna skuli að því markmiði að umræddar heilbrigðisstéttir fái takmarkaðan rétt til að ávísa tilteknum lyfjum. Jafnframt er aukið aðgengi að þjónustu um kynheilbrigði í samræmi við áherslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem og þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem lýtur að heilsu og vellíðan.

Í nýlegri stöðuskýrslu verkefnisstjórnar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna segir um stöðu Íslands gagnvart þriðja heimsmarkmiðinu að þó svo að almenningur hafi greiðan aðgang að getnaðarvörnum hjá heilsugæslu- og kvensjúkdómalæknum sé brýnt að huga enn betur að forvörnum og ráðgjöf um getnaðarvarnir sem komið geta í veg fyrir óráðgerða þungun. Þá segir jafnframt að huga þurfi sérlega að yngri konum og konum sem standa höllum fæti í samfélaginu. Þá hefur sjálfsforræði hvers einstaklings yfir eigin líkama verið áréttað, þar með talinn réttur einstaklings til að taka ákvörðun um barneignir.

Með þessari heimild til ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga er tekið skref í þá átt að bæta aðgengi kvenna að kynheilbrigðisþjónustu og treysta þar með sjálfsforræði þeirra. Einnig er betur nýtt sú fagþekking sem þessar stéttir búa yfir þannig að heilbrigðisþjónustan verði skilvirkari og mannauður og fagþekking nýtist enn betur. Loks ber ekki síst að nefna það að mikilvægt er að nýta þekkingu allra starfsstétta innan heilbrigðisþjónustunnar til að koma á aukinni teymisvinnu til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar og samfélagið í heild.

Eitt meginmarkmið ríkisstjórnarinnar er styrking heilsugæslunnar. Mikilvægt er að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu til að tryggja jafnan aðgang allra að góðri heilbrigðisþjónustu. Með aukinni eftirspurn eftir heilsugæsluþjónustu aukast áskoranir heilbrigðisyfirvalda enn frekar og er því mikilvægt að starfskraftar heilbrigðisstarfsmanna nýtist á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt.

Fyrirkomulagið sem hér um ræðir felur í sér samstarf við lækna sem gefur hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum færi á að sinna fleiri verkefnum, t.d. þeim sem læknar geta ekki sinnt sökum anna eða læknaskorts, til að mynda á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni. Leyfi til að ávísa þessum lyfjum verður bundið því skilyrði að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem heilsugæslu-, kvenlækninga- eða fæðingarþjónusta er veitt og mun landlæknir veita hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum leyfi til lyfjaávísunar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum sem sett verða í reglugerð. Meðal þessara skilyrða verður að viðkomandi hafi sótt og staðist fræðilegt og klínískt námskeið um lyfjaávísanir.

Embætti landlæknis mun hafa eftirlit með lyfjaávísunum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, líkt og varðandi lyfjaávísanir lækna og tannlækna og svipta leyfi til þess ef svo ber undir.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Leyfi ég mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.