149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

skilgreining auðlinda.

55. mál
[23:43]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka flutningsmanni, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir yfirferð og kynningu á málinu. Eins og kemur fram í greinargerð hefur tillaga sama efnis verið lögð fram áður og oftar en einu sinni, samanber flutning Vigdísar Hauksdóttur á 99. fundi Alþingis 30. apríl 2015.

Hugtakið auðlind er gríðarlega víðfeðmt og aðeins fáein dæmi um það eru vindurinn, loftgæðin, jörðin, þ.e. landið okkar, fiskurinn í hafinu, aðrir dýrastofnar, t.d. einstakt hestakyn okkar, veiðisvæðin okkar, ósnortin svæði, útivistarsvæði, efnistökusvæði o.s.frv.

Eins og þessi örstutta upptalning sýnir er gríðarlega mikið undir sem snertir okkur öll með einum eða öðrum hætti. Þess vegna er mjög mikilvægt að hugtakið auðlind verði skilgreint svo að til verði almennur skilningur á því hvað átt er við þegar rætt er um hugtakið auðlind og auðlindir þessa lands, að allir þeir sem fjalla á einhvern hátt um auðlindamál hafi á hugtakinu svipaðan skilning.

Fram kemur í I. lið þingsályktunartillögunnar að auðlindaréttur sem fræðigrein sé eitt af því sem stuðlar að ábyrgri umhverfishegðun. Ber að líta svo á að náttúruauðlindir og réttur til að nýta þær hafi verðgildi þó að í sumum tilfellum kunni að vera erfitt að meta slíkt til fjár. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 14. desember 1962 var samþykkt yfirlýsing nr. 1803 sem fjallar um sjálfstæði þjóða til að ráðstafa náttúruauðlindum sínum. Segir þar m.a. að nýting náttúruauðlinda eigi að þjóna hagsmunum og auka velmegun fólks í viðkomandi ríki. Hefur regla þessi verið staðfest í alþjóðasamningum.

Það verkefni og ferli sem þingsályktunartillagan leitast við að kalla fram er löngu tímabært og þarf að geta hafist sem fyrst.

Herra forseti. Það er von mín að sem flestir taki því verkefni fagnandi og að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson kalli til, auk þeirra sérfróðu sem nefndir eru í ályktuninni, breiðan hóp svo tryggja megi að sem flest viðhorf til skilgreiningarinnar fái rödd við þá vinnu.