149. löggjafarþing — 25. fundur,  26. okt. 2018.

samvinnufélög o.fl.

186. mál
[00:23]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um hlutafélög og lögum um sameignarfélög, þ.e. viðurlög vegna hlutfalls kynja í stjórn.

Þetta mál er athyglisvert. Það fjallar um að við erum að reyna að fylgja eftir lögum sem voru sett hér varðandi jafnan hlut karla og kvenna í stjórnum fyrirtækja. Við settum lögin árið 2010 og það var með lögum um einkahlutafélög. Þar voru lögfest ákvæði um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Þau öðluðust gildi 1. september 2013 þannig að gefinn var rúmur aðlögunartími.

Ég get tekið undir það sem hefur verið sagt í þessum sal að við séum í stanslausri baráttu varðandi þau mál. Það er litið til okkar sem þjóðar í jafnréttismálum, við erum talin hafa náð langt í þeim og það er mjög jákvætt. Við erum með ríkjandi jafnréttislög í landinu og okkur finnst krafan um jöfn laun eðlileg. Í sjálfu sér má segja að lagaramminn um þau mál hjá okkur sé nokkuð góður og umgjörðin töluvert traust en það er ekki nóg að setja lög heldur verðum við að fylgja þeim eftir.

Það er of algengt að við höfum sett einhver lög og erum sátt við þau en þau duga ekki til. Þegar við horfum til jafnréttismálanna tek ég undir að mikilvægt skref var stigið árið 2000 þegar réttur feðra og mæðra var jafnaður og þar með réttur barna, sem er mjög mikilvægt. Við höfum búið við fæðingarorlof sem er gríðarlega mikilvægt. Það má tína til alls konar hluti sem við höfum gert vel en það hefur ekki dugað til.

Ég var lengi vel þeirrar skoðunar að við ættum ekki að þurfa kynjakvóta. Þetta ætti bara að gerast því að öll tölum við þannig. En það eru samt einhverjar hindranir, eitthvert stopp, eitthvað sem hamlar okkur í því að konur fái framgang. Ég er því algerlega þeirrar skoðunar og get vísað til þess sem hefur gerst í mínum flokki. Þar höfum við unnið eftir þeim reglum og eru ákveðnar reglur varðandi framboðslista, hvernig við bjóðum fram. Þar er 40/60%-regla, þ.e. hlutfallið sem verður að vera á milli kynjanna. Hún fær okkur til að leggja okkur meira fram við að ná í konur og hvetja þær áfram, til að fá þær með okkur. Það er gríðarlega mikilvægt að gera því að ef við ætlum að spegla samfélagið þurfum við að hafa sem jöfnust kynjahlutföll á öllum sviðum, alls staðar sem við erum að vinna.

Í frumvarpinu er vísað í það hvernig hlutirnir hafa verið gerðir í Noregi, sem virðist hafa virkað vel. Ég fæ að grípa aðeins niður í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Í Noregi voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga árið 2003. Þar var kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Eftir innleiðingu norsku laganna hækkaði hlutur kvenna í stjórnum hlutafélaga úr 6% árið 2002 í 40% árið 2011. Hlutfall kvenna í stjórnum stórra fyrirtækja í Noregi hækkaði úr fjórðungi stjórnarmanna árið 2004 í 36% árið 2006 og náði 42% árið 2009.“

Þetta sýnir að leiðin virkar og við þurfum að fara þá leið. Árangur hennar er, samkvæmt Sissel Jensen, sem er norskur hagfræðingur, aukinn hlutur kvenna sem fá hæst laun innan slíkra fyrirtækja. Það sem framkvæmdin leiðir af sér er mjög jákvætt. Konur fá svo frekar tækifæri til að vera meðal æðstu stjórnenda þegar stjórnin sjálf er skipuð bæði körlum og konum.

Þær niðurstöður koma heim og saman við tilgang laganna, þ.e. að fleiri konur fá tækifæri til áhrifa í viðskiptalífinu. Við hljótum að vilja að í öllum lögum samfélagsins komi kynin sem jafnast að allri ákvarðanatöku, allri vinnu. Við deilum ábyrgðinni með okkur.

Ég get ekki hugsað mér að dætur mínar þurfi að berjast fyrir því inn í framtíðina. Það á ekki að vera þannig. Við eigum að virða það fólk sem gekk á undan, barðist fyrir jafnréttinu, kom okkur á þann stað sem við erum á í dag. Við þurfum að halda merkjum þeirra á lofti og styrkja þau. Við megum hvergi hvika af leið.

Þrátt fyrir að við höfum farið nokkuð að fordæmi Norðmanna og höfum, eins og ég vísaði í áðan, náð nokkuð góðum árangri — horft er til okkar annars staðar frá og fulltrúar okkar beðnir að koma fram og ræða jafnréttismálin og hvernig þeim er háttað hér — höfum við samt ekki náð þangað sem við ætluðum. Við höfum ekki náð sama árangri og Norðmenn og við eigum ekki að sætta okkur við það. Við eigum að fara lengra og gera meiri og ríkari kröfur.

En þá kemur að því að í frumvarpinu er mælt með viðurlögum. Það leiðir kannski af sjálfu sér, við erum að setja lög og þá hljóta að vera einhver viðurlög við því að fylgja þeim ekki eftir. Nú brestur mig kunnáttu til að meta hvernig á að leggja það á en ég reikna með því að þetta verði tekið fyrir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og menn skoði vel hvað sé passlegt.

Hv. þm. Óli Björn Kárason talaði um að óljóst væri hver fjárhagslegur styrkur fyrirtækja eða félaga væri. Ég reikna með að þetta mál verði rætt vel í nefndinni og fundin verði leið til niðurstöðu. Ég vona að málið verði til þess að við komumst áfram því að það hefur því miður orðið bakslag hjá okkur í jafnréttisbaráttunni. Þrátt fyrir að við tölum um að sjálfsagt sé að við búum við jafnrétti og að launamunur kynjanna eigi ekki að vera til staðar er það samt raunin, því miður.

Við þurfum að beita mörgum, fjölbreyttum leiðum í málaflokknum og þetta gæti verið ein þeirra. Ég er mjög spennt að fylgjast með því hvernig málinu reiðir af. Þrátt fyrir allt eru of fáar konur í stjórnum og of fáar konur eru forstjórar, það hefur sýnt sig. Það getur ekki átt að vera þannig. Konur hljóta að hafa alveg sömu hæfileika og karlar til þessa. Einhvern veginn þurfum við að hnika þeim málum áfram.

Ég óska nefndinni alls velfarnaðar í vinnslu málsins og hlakka til að fylgjast með framgangi þess. Ég þakka jafnframt flutningsmönnum fyrir að leggja frumvarpið fram. Við þurfum alltaf að vera á vaktinni og halda þeim málum á lofti. Við megum ekki þegja þau í hel. Þetta er sannarlega liður í því að halda þeim á lofti og vinna þau áfram og það er fagnaðarefni.