149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

dvalarleyfi barns námsmanna.

[15:29]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Takk kærlega fyrir það. Ég bjóst ekki við öðru. Þá vil ég bara lýsa stuðningi við ráðherra í málinu og brýna hann í því. Hann getur að sjálfsögðu borið fyrir sig að þetta eru lög sem heyra undir dómsmálaráðherra en samt sem áður er verið að meina barni að fá rétti sínum fullnægt samkvæmt íslenskum lögum um vernd og velferð og því trúi ég ekki öðru en að það verði bara lagað. Þetta er hola sem barnið er fast ofan í. Ég trúi ekki öðru en að menn gangi í að laga þetta af því að það stendur í lögunum og ef það er ekki lagað er verið að vanrækja það sem segir í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Þetta getur ekki verið skýrara.