149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

öryggis- og varnarmál.

[16:29]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir sérstaklega góða umræðu og þá sér í lagi áherslur þingmanna á loftslagsmál og breytta skilgreiningu á öryggishugtakinu. Sumum þykir ég vera að þrengja öryggishugtakið þegar ég segi: Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, og á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. En þetta hefur verið stefna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá stofnun og þetta hefur verið stefna vinstrimanna og friðarsinna í tæp 70 ár og verður að koma skýrt fram í gjörðum ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum og alþjóðamálum.

Það getum við til að mynda gert sem herlaus þjóð sem beitir sér ávallt með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir friðarumleitunum og beitir sér skýrt gegn stríðsátökum og fyrir friði. Við eigum að sýna að við virðum vopnaviðskiptasamning Sameinuðu þjóðanna og alþjóðleg mannúðarlög og með því að greiða atkvæði með sáttmálum um bann við kjarnorkuvopnum.

Við getum lagt mikilvæg lóð á vogarskálar friðar og jöfnuðar og við eigum að gera það með það í huga að Ísland er ekki eyland. Við eigum að leggja okkar af mörkum á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að útrýma ójöfnuði, tala fyrir samvinnu, friðsamlegum lausnum og stuðningi við afvopnunarsamninga.

Að lokum vil ég minna á að Ísland á að halda úti sjálfstæðri utanríkisstefnu og leggja sjálfstæða áherslu á alþjóðavettvangi á frið, mannréttindi og mannúð, réttlæti og lýðræði. Saga okkar, menning og samfélagsgerð gefur okkur forskot. Við eigum að nýta það forskot og standa bein í baki og full sjálfstrausts, þrátt fyrir smæð okkar. Fámenn ríki hafa nefnilega komið frábærum hlutum til leiðar á alþjóðavettvangi og þar erum við engin undantekning.