149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lítil sláturhús.

192. mál
[17:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna sömuleiðis. Ég meðtek líka alla þá hvatningu sem hefur komið fram í orðum þingmanna við umræðu um þetta mál.

Það er örugglega ýmislegt sem veldur því að ekki er meira sótt á um breytingar eða uppbyggingu smærri sláturhúsa. Það er meira en að segja það fyrir sauðfjárbónda í dag að ráðast í fjárfestingu, byggja upp markað, leggja í kostnað við að markaðssetja nýtt fyrirtæki o.s.frv. Þetta verður ekkert hrist fram úr erminni þó svo að stjórnvöld og stjórnmálamenn séu mjög áhugasöm um að þetta geti gengið eftir. Það er örugglega ýmislegt í matvælalöggjöfinni líka sem er kannski ekki beinlínis fráhrindandi en hvetur ekki smærri framleiðendur til að leggja út í þá miklu vinnu sem þessu fylgir. Það eru því ýmsar ástæður fyrir þessu.

Eins og ég sagði í svörum við spurningum hv. þingmanns þá erum við að skoða allt það sem við getum gert í samstarfi við bæði Matís, við Matvælastofnun, erum sömuleiðis að leita upplýsinga, m.a. frá Þýskalandi vegna þess að við höfum heyrt að þar séu einhverjar landsbundnar reglur sem við viljum gjarnan fá tækifæri til að skoða, þannig að við erum að fylgjast með. Við styðjum alla viðleitni í þessa átt eftir föngum og viljum búa svo um hnútana að það verði auðveldara heldur en erfiðara fyrir smærri framleiðendur að standa í því að eiginlega markaðssetja eigin framleiðslu á sínum eigin forsendum. Það væri mjög gott ef það væri til muna auðveldara en það er í dag. En það eru ótal hlutir sem þarf að breyta áður en af því getur orðið í einhverju miklu magni.