149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lífrænn landbúnaður og ylrækt.

269. mál
[17:27]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar. Þær eru tvær. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega tekið fram að efla þurfi að lífrænan landbúnað. Áhersla þessi er í samræmi við rammasamning um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins á árunum 2017–2026 þar sem eitt af markmiðum samningsins er að auka vægi lífrænnar framleiðslu. Það mun jafnframt verða áhersla mín við endurskoðun búvörusamninganna sem fer fram núna á árunum 2018–2019.

Samkvæmt rammasamningnum ráðstafar Matvælastofnun fjármunum sem ætlaðir eru í þetta verkefni. Markmiðið er að aðstoða framleiðendur eða uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um lífræna búvöruframleiðslu og auka framboð slíkra vara á markaði.

Svo kemur að veruleikanum. Árið 2017 sóttu tveir framleiðendur, einungis tveir, um aðstoð til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum og fimm aðilar hafa sótt um aðlögun að greiðslu það sem af er árinu 2018. Þetta eru sem sagt sjö aðilar á tveimur árum. Það kemur á óvart að framleiðendur sæki ekki í meira mæli um greiðslur til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum, en árið 2017 voru einungis greiddar 3,2 milljónir í styrki í þessu sambandi. Samkvæmt samningnum var gert ráð fyrir allt að 35 milljónum til verkefnisins. Fleiri hafa að vísu sótt um á árinu 2018 og hefur nú þegar verið ráðstafað rétt rúmlega 21 milljón í þetta sama verkefni. Eftirspurnin eftir þessu fer greinilega aðeins vaxandi.

Í núgildandi samningi er kveðið á um að ylræktendum verði tryggt rafmagn til lýsingar með niðurgreiðslum á kostnaði við flutning og dreifingu raforku í því skyni að stuðla að hagfelldari starfsskilyrðum greinarinnar. Gert er ráð fyrir að þessi ákvæði verði skoðuð nánar við endurskoðun samningsins árið 2019 með það að markmiði að efla ylræktina enn frekar.

Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á að Ísland skuli vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Einnig kemur fram að nýta beri tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Forsenda þess að landbúnaður geti nýtt tækifæri til framtíðarinnar er jafnvægi í framleiðslu, skilvirkt eftirlit og nýsköpun. Ég hef skipað verkefnisstjórn til að móta matvælastefnu fyrir Ísland.

Tilgangur stefnunnar verður að draga fram áherslur stjórnvalda eins og þær birtast í stjórnarsáttmálanum ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og tillögur að aðgerðaáætlun, til að innleiða íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi. Vinnan við þetta verk er nýhafin og strax rekumst við á þá staðreynd að allan grunn að upplýsingum, samtölur eins og sagt er, vantar til þess að við getum tekið skipulega umræðu og mótað skynsamlega stefnu. Þannig að fyrstu skrefin í þessu efni eru þau að byggja upp gagnagrunn. En í þessu verkefni, eins og verkefnislýsingin er orðuð, geri ég ráð fyrir að stefnan liggi fyrir í lok næsta árs, árið 2019.

Þá á sömuleiðis skipa starfshóp til að móta stefnu um opinber innkaup matvæla til að tryggja neytendum matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa. Stefnan tekur mið af því að opinber innkaup matvæla stuðla að minnkun sótspors við framleiðslu og flutning. Í þessu efni ætti innlend framleiðsla að hafa gríðarlegt forskot í samanburði við matvæli sem eru með gríðarlega stórt og mikið sótspor. Gert er ráð fyrir að tillögur þessa hóps miði jafnframt að því að tryggja að neytendur hafi aðgang að upplýsingum um uppruna matvæla og að stefnan uppfylli lýðheilsumarkmið um næringu. Ég áætla að þessi starfshópur skili tillögum sínum í mars á næsta ári.

Ríkisstjórnin ætlar jafnframt að tryggja betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif og eru þau mál nú til skoðunar innan ráðuneytis míns.

Efling ylræktar, eins og hv. málshefjandi hafði orð á, fellur vel að áherslum ríkisstjórnarinnar sem fram koma í stjórnarsáttmála og endurspeglast að mínu mati ágætlega í þeim verkefnum sem nú er unnið að í landbúnaðarráðuneytinu.