149. löggjafarþing — 26. fundur,  5. nóv. 2018.

lífrænn landbúnaður og ylrækt.

269. mál
[17:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum og hæstv. ráðherra fyrir þessar ágætu umræður og fagna stefnuvinnu í ráðuneytinu. Þegar kemur að lífrænu ræktuninni er auðvitað ekki gott að sjá að það eru ekki nema sjö framleiðendur núna sl. tvö ár sem hafa sótt um aðstoð. En það þarf að stækka markaðinn líka. Verð lífrænna afurða er fremur hátt, það er enn eitt atriðið sem þarf að taka til endurskoðunar, en ég hvet enn og aftur til fleiri beinna hvata, tímabundins skattafsláttar eða hvaðeina meðan lífrænir ræktendur eru að koma sér á legg. Það eru fleiri atriði en þau sem hafa verið nefnd hér sem geta komið til greina.

Hvað ylræktina snertir þá tel ég lykilatriðið þar vera menntunina. Garðyrkjuskólinn hefur verið að mörgu leyti fjársveltur í gegnum sinn móðurháskóla einfaldlega vegna þess að þar hafa framlög lítið hækkað og það sem meira er, þessar 125 milljónir sem hafa verið veittar til skólans í þrjú ár hafa rétt dugað fyrir viðgerðum og endurbótum á húsnæðinu, en innviðirnir sjálfir hafa liðið fyrir það. Það er stórt tækifæri sem felst í því að stórefla menntun og þekkingu á þessu sviði. Dæmið sem ég nefndi áðan um útirækt með volgum jarðvegi, það er hlutur sem væri t.d. hægt að koma á einmitt í gegnum skólann fremur en með einhverjum öðrum aðferðum.

Ég hvet til þess að Garðyrkjuskólinn á Reykjum verði efldur með öllum ráðum.