149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nota tækifærið og ræða nýsköpun og mikilvægi hennar fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag.

Ég var eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson á málþingi á föstudaginn þar sem Guðmundur Hafsteinsson, sem falið hefur verið það verkefni að leiða hóp er á að mynda nýsköpunarstefnu okkar Íslendinga, talaði um það sem ég vil túlka sem fegurðina í smæðinni, tækifæri okkar sem lítils lands til að bera af á ýmsum vettvangi.

Eins og okkur er ljóst hefur hæstv. iðnaðar- og nýsköpunarráðherra myndað hóp og ég veit að margir hv. þingmenn eru þátttakendur í því að móta nýsköpunarstefnu. Mér finnst einkar mikilvægt að horft sé til nokkurra þátta í því. Horft er til nýsköpunar í atvinnulífinu og þá sérstaklega talað um matvælaframleiðslu, heilbrigðistækni og menntamál. Svo er talað um stuðningsumhverfi nýsköpunar, umhverfisvænar lausnir, opinberan rekstur og heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Guðmundur talaði um að við værum oft hrædd við tæknina og værum hrædd við nýja hluti. Það er vissulega rétt hjá honum. Ég held að við þurfum að horfa sérstaklega til þess að við höfum hér ótrúlegan fjölda af flottu fólki, flottum frumkvöðlum sem eru tilbúnir að leggja mikið af mörkum, en við erum oft hrædd við að veðja á hin glæsilegu fyrirtæki okkar og flotta frumkvöðla.

Fyrr í dag fengum við nokkrir þingmenn að hlusta á Ifor Williams tala um mikilvægi klasasamstarfs og það hvað klasasamstarf getur leitt af sér mikla nýsköpun. Hann komst svo að orði að við værum einfaldlega hæg og sein þegar kemur að uppbyggingu klasa, þótt við höfum nokkrar frábæra klasa sem gera glæsilega hluti. Mælti hann með því að við mynduðum okkur opinbera klasastefnu, eins og hv. þm. Willum Þór Þórsson kom inn á áðan og hefur mælt fyrir, og taldi að slík stefna ætti að vera hluti af nýsköpunarstefnu okkar . (Forseti hringir.) Ég vona svo innilega að okkur lánist að koma fram með nýsköpunarstefnu fljótlega sem horfir til allra þeirra þátta.