149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

162. mál
[15:19]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, ég held að hugmyndafræðin á bak við vörugjöldin sé barn síns tíma. Þau munu hægt og bítandi hverfa, meira eða minna, a.m.k. þegar kemur að fólksbílum, alveg sama hvað við gerum hér, þau verða ekki sá tekjustofn sem við erum að tala um. Við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun og það kemur vonandi inn á borð þeirra þingmanna sem nú sitja í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að taka afstöðu til þess hvernig við ætlum að forma gjaldakerfi á umferð.

Vegtollar eru bara ein af mörgum hugmyndum. Ef menn ætla síðan að smíða hér gjalda- og skattkerfi í kringum umferð til að ná fram ákveðnum markmiðum, t.d. í loftslagsmálum, flækist málið. Það verður flóknara en ekki óleysanlegt. Við höfum þegar fengið kynningu í efnahags- og viðskiptanefnd að ákveðnum tillögum um það hvernig eigi að breyta gjaldakerfinu. Eins og ég nefndi áðan er á vegum hæstv. samgönguráðherra unnið að skoðun á því hvort og hvernig og með hvaða hætti skynsamlegt sé að innleiða hér gjöld sem miðast við notkun á vegum. Ég er almennt hlynntur því að fólk greiði fyrir það sem það notar en sé ekki að greiða fyrir það sem það notar ekki. Ég hygg að hv. þingmaður sé samstiga mér í því.