149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:33]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð á þessu máli. Eins og við þekkjum öll eru sífelldar breytingar í samfélagi okkar og það mun gilda um póstþjónustuna eins og annað. Það hefur dregið verulega úr póstþjónustu að undanförnu, bara í samræmi við nútímann. Það eru breyttir lifnaðarhættir og breyttir samskiptahættir sem leiða það af sér.

En ég velti fyrir mér hvort íbúar landsbyggðarinnar muni standa frammi fyrir því að þjónustan muni versna á einhvern hátt. Er hætta á því? Hvernig verður því þá mætt? Nú vitum við alveg að það eru ekki alltaf markaðsráðandi öfl sem ráða því, það er ekki mjög eftirsóknarvert að þjónusta kannski ákveðin svæði.

Svo vil ég einnig velta því upp varðandi þetta frumvarp hvaða lög gilda um erlendar póstsendingar, hvenær íslensku lögin taka yfir. Munu þau víkja fyrir einhverjum öðrum lögum? Hér eru líka ríkjandi alþjóðasamningar, þá erum við að tala um svokölluð endastöðvargjöld. Ef ráðherra gæti kannski farið aðeins yfir það fyrir mig. Ég hef heyrt fólk vera að velta þessu fyrir sér. Ég held að ég komi nú ekki með annað.