149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið sem þó er ekki alveg skiljanlegt. Póstþjónustan í dag, Íslandspóstur, er jú opinbert hlutafélag í eigu ríkisins, þannig að póstþjónustan í dag, slöpp eins og hún er, er á höndum ríkisins og henni hefur farið mjög aftur undanfarinn áratug af hálfu ríkisins. Það erum jú við sem berum ábyrgð á Íslandspósti, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Þegar maður horfir á ástandið þar og horfir aðeins aftur í tímann — við höfum svo sem verið að fjalla um það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og fengið forstjórann til okkar og erum að leita svara — þá er Íslandspóstur sem slíkur í verulegum vanda. Það er sérstakt rannsóknarefni hvernig reksturinn þar hefur verið undanfarin ár, sambland af samkeppnisrekstri og rekstri í einkarétti.

Flest Evrópuríki afnámu einkaréttinn 2011. Noregur ákvað að bíða með að innleiða þessa tilskipun í fimm ár, innleiddi hana svo 2016. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að Noregur ákveður að gera það þá. Við höfum hins vegar ekki gert það allan þennan tíma. Það eru sjö ár síðan og við stöndum í því núna að horfa á að rekstur Íslandspósts hefur verið með eindæmum. Þeir eru aftur að fá lán hjá ríkissjóði, held ég, einhverra hluta vegna. Ég veit ekki af hverju þeir fara ekki til síns viðskiptabanka. Þjónustan hefur stöðugt farið versnandi án þess að við höfum verið að innleiða þessa tilskipun þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvernig þingmaðurinn fer að því að kenna tilskipun sem ekki hefur verið innleidd um síversnandi þjónustu og rekstur Íslandspósts.