149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið og vil aftur taka undir með henni að við erum komin á þann stað sem samfélag að nú þarf að hugsa dálítið stórt um það hvernig við bregðumst við ofbeldi í samfélaginu, hvernig við bætum þolendum, hvernig við vinnum að forvörnum, hvernig við tryggjum fólki möguleikann á að lifa öruggt í samfélaginu.

Við gerum það á ýmsum sviðum þegar kemur að umferðaröryggi t.d. eða forvörnum gegn ofanflóðum. Þá á hið opinbera mikið fé til að leggja fram, skiljanlega, þarna þarf að bregðast við. En þegar kemur að ofbeldisvörnum þá vantar enn þá einhvern ofbeldisvarnasjóð eins og við höfum ofanflóðasjóð, álíka stóran, með álíka mikinn slagkraft. Þannig að ég tek heils hugar undir þessar hugmyndir þingmannsins og jafnframt, hvað eigum við að kalla það, ég held ég dæsi með henni yfir því að það þurfi þingmenn til að leggja þetta mál fram. Auðvitað hefði dómsmálaráðherra fyrir fjórum árum átt að leggja fram svona mál og klára það eða fyrir þremur árum, eða fyrir tveimur árum, eða í fyrra. En það er ekki sá veruleiki sem við búum við. Þá koma þingmenn fram með fullburðugt mál og við klárum það saman.