149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að byrja á að bregðast við orðum hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér og segja: Að sjálfsögðu þurfum við að taka mið af svona fréttum eins og komu í morgun. Við þurfum öll að bæta okkur þegar kemur að umhverfismálum og losunarmálum. Mig langar þess vegna bara að benda á og fagna stefnu ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum. Það er mikilvægt mál. En betur má ef duga skal. Ég held að við séum öll sammála um það.

Það var ekki það sem ég hafði kvatt mér hljóðs til þess að ræða heldur langaði mig að minna á að við Íslendingar eigum um þessar mundir sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Tildrög þess voru að vísu ekki eins jákvæð og hægt hefði verið þar sem við fengum sæti eftir að Bandaríkin ákváðu að hætta að taka þátt í ráðinu.

Í gær voru fluttar fréttir af vettvangi ráðsins þar sem fulltrúar Íslands létu til sín taka í svokallaðri jafningjarýni þar sem staða mannréttindamála í Sádí-Arabíu var rædd. Á fundinum hvöttu Íslendingar m.a. til að Sádí-Arabar létu af stríðsrekstri sínum í Jemen. Ég tel að þetta sé mál sem eigi erindi við þingið. Heimurinn horfir agndofa á hörmungarnar í Jemen. Óháðir sérfræðingar hafa áætlað að meira en 55.000 manns hafi fallið í hernaðinum í landinu frá því snemma á árinu 2016 og eru þá ekki taldir með hinir fjölmörgu sem látist vegna farsótta og hungursneyðar. Þar sér því miður hvergi fyrir endann á.

Mér finnst það lofsvert að Íslendingar noti rödd sína á alþjóðavettvangi til að tala fyrir friði en við megum engu að síður ekki gleyma ábyrgð okkar og okkar nánustu bandamanna á ástandinu. Það eru vestræn vopn sem eru að drepa fólkið í Jemen, jafnvel flutt á svæðið með íslenskum flugvélum. Það eru Bandaríkjamenn sem aðstoða Sádí-Araba við að velja skotmörk (Forseti hringir.) og styðja hernaðinn með ráðum og dáð.

Þetta er því mál sem við þurfum líka að taka upp með þeim þjóðum sem við vinnum með annars staðar á alþjóðavettvangi, svo sem í NATO.