149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að byrja á því að óska Bandaríkjamönnum til hamingju með fjölbreytni kjörinna fulltrúa í fulltrúadeild Bandaríkjaþings en þar eiga nú fleiri konur sæti en nokkru sinni áður og með fjölbreyttari bakgrunn.

Að því sögðu ætla ég aðeins að fara til baka í kynnisferð sem ég fór ásamt fleiri þingmönnum til Sameinuðu þjóðanna á dögunum. Þar fengum við m.a. kynningu á vinnu samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun. Þar kom skýrt fram að áhersla Íslands á endurheimt landgæða og forysta í landgræðslu á heimsvísu hefur mikla þýðingu fyrir vinnu samkvæmt samningnum.

Hvers vegna hefur Ísland sérstöðu á þessu sviði? Það er vegna þess að tiltölulega fáar betur stæðar þjóðir og mjög fáar Evrópuþjóðie glíma við landeyðingu og hafa því ekki skilning á þeim vanda eða þekkingu á aðferðum við endurheimt landgæða. Hér hefur verið unnið markvisst að landgræðslu í meira en 100 ár og við rekum Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna. Það hefur sýnt sig að þekking sem aflað hefur verið hér á landi nýtist sannarlega í öðrum heimsálfum og í alþjóðastarfi er mikilvægt að eiga talsmenn fyrir endurheimt landgæða í öllum heimshlutum.

Vinnan gegn eyðimerkurmyndun fellur undir heimsmarkmið um líf á landi en hefur áhrif á fjölda annarra markmiða. Þar er áherslan á jafnvægi milli hnignunar og endurheimtar lands í heiminum. Endurheimt landgæða er óhjákvæmilegur hluti af aðgerðum í loftslagsmálum. Fjárfesting í landi og gróðri er undirstaða jákvæðrar samfélagsþróunar víða og landgæði hafa bein áhrif á lífsgæði og fólksflutninga.

Nýlega var mælt fyrir frumvarpi til nýrra landgræðslulaga og nýrra skógræktarlaga hér á Alþingi. Ágætu þingmenn. Við þurfum við vinnslu þessara frumvarpa að vera meðvituð um það að vinna okkar að endurheimt landgæða hefur mikla þýðingu hér á landi en líka beint og óbeint á heimsvísu.