149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef sagt hér áður þá finnst mér ekki við hæfi að fara út í efnislega trúarbragðaumræðu í pontu Alþingis. Trúarbrögð og lífsskoðanir eru persónuleg málefni sem eiga sér engan stað hér en það vill svo til að í 62. gr. stjórnarskrárinnar fær eitt trúfélag sérstaka vernd og stuðning ríkisins. Er það sú sem er kölluð hin evangelíska lúterska kirkja. Ég hef heyrt ýmis rök fyrir því fyrirkomulagi og öll eru þau vond þá sjaldan sem þau eru yfir höfuð rök. Mótrökin eru enn fleiri og undantekningarlaust sterkari. Ein rökin sem eru notuð og eru vond eru að meiri hluti Íslendinga sé kristinn og vilji hafa ríkiskirkju. Þetta eru vond rök enda snýst jafnræði fyrir lögum, annað grundvallaratriði lýðræðissamfélags, einmitt um að fólk fái ekki lagaleg forréttindi fyrir að tilheyra tilteknum hópi og við leggjum ekki réttindi minnihlutahópa fyrir einhverja þjóðaratkvæðagreiðslu.

En prófum aðeins að samþykkja þessi rök. Þá vil ég benda á eitt að það er til fólk með aðrar skoðanir og fyrst stjórnarskráin er löggjöf þá hlýtur það að vera hlutverk okkar þingmanna að rökstyðja ástæður þess að við teljum að fyrirkomulagið ætti að vera einhvern veginn öðruvísi, að einhver önnur kirkja eða eitthvert annað lífsskoðunarfélag ætti að njóta þessarar sérstöku verndar, þessa sérstaka stuðnings.

Með öðrum orðum þá fylgir þessari röksemd að hlutverk mitt sem þingmanns sem ekki aðhyllist kristna trú sé að færa rök gegn evangelískri lúterskri trú, efnisleg rök fyrir því að efnisatriði þeirra trúarbragða séu röng. Það hlýtur að vera sá farvegur sem ég á að fara til að reyna að ýta kjósendum og þingheimi í þá átt sem ég tel vera rétta.

Athugið að þetta er einungis tilfellið ef við teljum eðlilegt að hafa ríkistrúarbrögð eða ríkislífsskoðun til að byrja með. Ég tel það ekki eðlilegt og því ekki eðlilegt að fara efnislega í trúarbragðaumræðu hér.

Mig langar að spyrja þá þingmenn sem verja samband ríkis og kirkju hvort þeir vilji það. Vilja þeir koma hingað í pontu og ræða efnislega um mótsagnirnar, staðreynda- og rökvillurnar sem finnast í Biblíunni, nú eða hvort það skipti máli? Ef svo er þá er ég til í það. Mér þætti það ósæmilegt enda þykir mér það ósæmilegt að þetta samband ríkis og kirkju sé til staðar yfir höfuð.