149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Satt best að segja verð ég að viðurkenna að ég var að vona að umrætt mál, sem fer þvert gegn neytendum, fer þvert gegn almennum samkeppnisreglum, myndi týnast í kerfinu. Ég vonaðist til þess að það myndi týnast einhvers staðar, hvort sem er hér á göngum eða í kerfinu eða annars staðar. Engu að síður er það réttur þingmanna að bera fram mál. Það er líka réttur þeirra sem hafa verið 1. flutningsmaður, sama í hvaða flokki þeir hafa verið, að bera virðingu fyrir því hver er 1. flutningsmaður hverju sinni þegar málið er efnislega algjörlega það sama á milli þinga. Mér finnst þetta sjálfsögð og eðlileg athugasemd af hálfu Miðflokksins sem kom upp áðan, þótt ég sé efnislega algjörlega á móti frumvarpinu og boða mjög harða andstöðu af hálfu Viðreisnar í því.