149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala um þetta sem allir hinir eru búnir að tala um nema það sem Þórhildur Sunna byrjaði á að nefna, að það er ákveðin meginregla í þessum lið sem við byrjuðum á hérna, liðnum um störf þingsins, að ef maður vill beina athugasemd gagnvart öðrum þingmanni er honum boðið upp á að koma og tala á eftir. Þetta er regla sem hefur verið viðhöfð frá því að ég byrjaði á þingi, 2013. Ég hef séð hæstv. ráðherra Guðlaug Þór Þórðarson koma upp í ræðustól alveg æfan undir liðnum um fundarstjórn forseta eftir liðinn um störf þingsins vegna þess að honum var ekki boðið það. Þá fór Svandís Svavarsdóttir, hv. þingflokksformaður Vinstri grænna, upp í ræðustól og baðst afsökunar á því.

Ég hef líka séð Ragnheiði Ríkharðsdóttur, sem þá var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, koma í ræðustól og biðja afsökunar á hinu sama. Ef við erum komin með aðrar reglur, þ.e. ef það er önnur meginregla sem Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhafa í störfum þingsins og brjóta þar af leiðandi þá hefð sem er góð meginregla, að bjóða fólki að bregðast við ef maður ætlar að ganga harkalega gegn því í ræðustól með nafni, sem hv. þm. Brynjar Níelsson gerði gagnvart Birni Leví Gunnarssyni, er bara ný regla komin. (Gripið fram í.) Þá skulum við hafa það skýrt. (Gripið fram í: Páll Magnússon.) Ha?

(Forseti (SJS): Ekki samtal í salnum.)

Eins og hv. þm. Páll Magnússon gerði og þá er komin ný regla. Þá er það bara orðið þannig.