149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Virðulegur forseti. Hæstv. forseti hefur þegar tilkynnt að honum leiðist þessi umræða um fundarstjórn forseta en ég bar upp spurningu við hæstv. forseta áðan og ef hann vildi svara henni fyrir mig gætum við klárað þetta býsna fljótt. Þetta er ekkert stórkostlegt vandamál, ég vildi einfaldlega fá svar við einfaldri spurningu. Það er óþarfi að þeir þingmenn sem í hlut eiga reyni að slá þessu upp í eitthvert gagnfræðaskólasprell eða að hv. þingmenn Vinstri grænna komi hér upp í sinni vanabundnu viðkvæmni fyrir gagnrýni á Framsóknarflokkinn, sinn minnsta bróður.

Það eina sem ég bið um, virðulegur forseti, er svar við þessari spurningu: Er að hans mati eðlilegt fyrirkomulag að þegar þingmaður er búinn að leggja fram mál sitt, þegar hann er búinn að tilkynna að hann hyggist leggja það fram aftur, búinn að skila því til þingsins, sé sams konar mál með sama texta frá öðrum þingmönnum tekið fram yfir í dagskrá þingsins?

Þetta er það eina sem mig langaði að vita, virðulegur forseti. Þar fyrir utan þurfum við ekki að hafa af þessu verulegar áhyggjur og fögnum því að sjálfsögðu ef sem flestir þingmenn eru reiðubúnir að styðja málið.