149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

314. mál
[16:28]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú vill þannig til að mitt síðasta starf áður en ég fór á þing snerist að einhverju leyti um rannsóknir á peningaþvætti. Það eru ákveðin mynstur sem þeir sem skoða þessi mál sjá á heimsvísu. Ég hef t.d. aldrei séð peningaþvættismál yfir milljarði dollara sem ekki fer í gegnum London.

Jafnframt eru iðulega tengsl við lönd eins og eyjuna Mön, Belís og Panama þar sem eru mjög takmarkaðar upplýsingar fyrir hendi. Að vísu hefur Panama bætt sitt ráð töluvert á undanförnum tveimur, þremur árum. En svo eru lönd þar sem ekki er hægt að fá upplýsingar um það sem er í gangi. Þau lönd gera beinlínis út á það að veita fólki leynd til að auðveldara sé að stunda peningaþvætti og eitthvað álíka. Það eru þau lönd sem ég hugsa um, ekki löndin sem við erum í einhverju samstarfi við um upplýsingaflæði.

Í vor var samþykkt frumvarp þar sem innleidd voru nokkur atriði sem tengjast þessu frumvarpi. Það var ákveðinn grunur í vor sem beindist fyrst og fremst að örfáum fyrirtækjum. En gott og vel. Það var alveg full ástæða til að samþykkja það frumvarp. En ég velti fyrir mér í því samhengi hvort einhver tölfræði sé til staðar, einhvers konar upplýsingar um eftirlit og árangur af því að reyna að stöðva peningaþvætti. Einhvers konar mat á því hversu mikið umfangið á peningaþvætti er og eftir hvaða leiðum það fer.

Nú er öllum ljóst að á heimsvísu er stundað mikið peningaþvætti. Ég man ekki í svipinn hversu stór upphæðin eru núna en hún hleypur á trilljónum dollara árlega. Til að geta metið árangur þessara laga þurfum (Forseti hringir.) við að vita hversu mikið umfangið er hér og hvernig gengur að glíma við vandann miðað við hlutfallslega stærð hans.