149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:24]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur þessa glöggu spurningu, hún er mjög góð. Það er gjarnan þannig, eins og í þessu tilviki, að maður reynir að tengja saman marga þætti til að láta þá ganga upp. Ég sé bara þegar þessi spurning kemur að það hefði mátt fara betur yfir þennan þátt í greinargerðinni. Það kemur til af því að þetta snýr ekki beinlínis að lýðháskóla sem slíkum eða þeirri starfsemi sem þar fer fram heldur því að nýta þau mannvirki sem eru til staðar og áhugi er fyrir. Við getum rifjað upp að Íþróttaháskólinn var þarna á sínum tíma og þegar hann flutti til Reykjavíkur vantaði starfsemi til að nýta mannvirkin. Fjöldi nemenda sem var á staðnum fór burt og það er alltaf högg fyrir minni samfélög. Svo voru sumarbúðirnar í Sælingsdal að leggjast af og þetta snýr meira að því að nýta mannvirkin. Það er auðvitað alveg stórkostleg aðstaða á Laugarvatni fyrir svona sumarbúðir og þá er hægt að nýta mannvirkin meðan skólinn er jafnvel ekki starfandi.

Ég sé það bara þegar hv. þingmaður spyr að það hefði þurft fara ítarlegar yfir þetta í greinargerð því að með þessari tillögu er verið að tengja saman nokkra ólíka þætti.