149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[17:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir framsöguna og raunar þeim þingmönnum öðrum sem hafa tekið þátt í umræðunni þeirra viðbrögð. Það er gaman að heyra hvað þau eru jákvæð því að ég tel að í grunninn sé hér býsna gott mál á ferðinni. Ég held að það að fara þessa svokölluðu lýðháskólaleið sé ágætisleið til að bregðast við því ákalli sem hefur svolítið verið í samfélaginu um fjölbreyttari námsleiðir, um leiðir fyrir nemendur sem kannski hafa ekki fundið kröftum sínum viðspyrnu í því sem við skulum kalla almenna menntakerfið, leið til að styrkja sig og bæta.

Ég get verið sammála hv. þm. Willum Þór Þórssyni í því að það er mikilvægt að með þessu máli fylgi löggjöf sem hefur aðeins borið á góma í máli margra hv. þingmanna. Ég held raunar að við eigum að halda okkur við lýðháskólaheitið og ég sé ekki að það að þessi tegund af námsleið heiti lýðháskóli, sem er gamalt og gott orð í íslensku máli, skyggi á nokkurn hátt á hefðbundna háskóla enda er lýðháskóli ekki hefðbundinn háskóli. Hann er ekki háskóli nema þá í mesta lagi deild í háskóla lífsins og ekki bönnum við fólki að tala um háskóla lífsins. Fólki er það algjörlega heimilt. Ég myndi vilja vita, og það væri gaman að hv. nefnd tæki það til umfjöllunar og aflaði sér kannski upplýsinga um það, hvernig og þá á hvaða hátt lýðháskólar hjálpa nemendum sínum til að komast inn í hefðbundið nám eða sem sagt hvort þeir sem útskrifast úr lýðháskóla eiga í framhaldinu auðveldara með að fóta sig í hefðbundna menntakerfinu.

Ég held því ekki fram að það sé í sjálfu sér eitthvert markmið með lýðháskólanum, alls ekki, en ég held að það sé engu að síður mikilvægt að vita þetta og að það sé gagnlegt fyrir okkur sem samfélag að vita þetta, ekki hvað síst í því tilliti að átta okkur á því hvaða ávinningi þetta skilar samfélaginu á endanum. Það hlýtur að vera markmiðið í aðra röndina og í hina að skila ávinningi þeim einstaklingum sem þarna eiga í hlut.

Ég tel líka mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði til að mynda aðkomu Lánasjóðs íslenskra námsmanna að skólum eins og þessum, hvort það væri flötur á því að nám í lýðháskólum væri lánshæft eins og annað nám og þá jafnvel að kalla til fulltrúa lánasjóðsins til að ræða það, sömuleiðis þætti eins og aldurstakmörk ef einhver eru o.fl. Því má velta fyrir sér hvort það sé þörf fyrir marga lýðháskóla eða margar lýðháskóladeildir á Íslandi. Ég held að hvort sem við höfum þetta allt undir hatti eins lýðháskóla eða ekki sé mikilvægt að það séu nokkrar deildir, að þær séu á mismunandi stöðum og séu með mismunandi námsleiðir.

Ég hef verið svo lánsamur í haust að fá tækifæri til að kynna mér báðar þær lýðháskóladeildir sem eru starfandi nú þegar, þ.e. á Flateyri og Seyðisfirði, og er ekkert nema jákvætt um þær að segja. Ég tek undir með hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur sem kom inn á það áðan hvernig Flateyri hefði að vissu leyti lifnað við þegar skólinn var settur og menn upplifðu að þetta verkefni væri að raungerast.

Þá er það okkar verkefni hér inni að tryggja að í framhaldinu sjáum við sem stjórnvald, þ.e. Alþingi, löggjafarsamkundan, til þess að þessi tegund náms fái stað í löggjöf og stuðning þaðan, en ekki síður að hún fái í framhaldinu stuðning frá fjárveitingavaldinu sem liggur hjá Alþingi. Ég hlakka til að sjá þetta mál síðar í vetur við síðari umr.