149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

30. mál
[18:11]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna því að komin sé fram þingsályktunartillaga um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég er svo heppin að fá að vera einn af flutningsmönnum tillögunnar með hv. þm. Willum Þór Þórssyni sem hefur dregið vagninn í þeirri vinnu. Tillagan snýst um að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem skipuleggi stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ráðherra ákveði skipan starfshópsins, en í honum sitja a.m.k. einn fulltrúi frá Ungmennafélagi Íslands og einn frá Bláskógabyggð. Hópurinn taki m.a. mið af yfirstandandi vinnu við lagafrumvarp um lýðháskóla, nýtingu lýðháskóla, nýtingu mannvirkja og skólans á Laugarvatni við rekstur sumarbúða Ungmennafélags Íslands, rannsóknum á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum og reynslu af stofnun og rekstri annarra lýðháskóla hér á landi, einkum á Flateyri og Seyðisfirði. Starfshópurinn skili ráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 31. maí árið 2019.

Þetta er viðamikið verkefni en mikilvægt og dýrmætt og er tillagan lögð fram þótt staðan sé raunar sú að engin lög eru um lýðháskóla hér á landi. Mjög mikilvægt er að um það verði skýr rammi og skýr bókstafur og hefur mennta- menningarmálaráðherra það á sinni könnu að vinna að gerð frumvarps til laga um lýðháskóla á Íslandi og þá að norrænni fyrirmynd.

Flest þekkjum við fyrirkomulagi slíkra skóla á Norðurlöndunum og höfum við horft til þeirra við vinnuna í málinu. Verði tillagan um að setja lagaramma utan um slíkt skólaform samþykkt er markmiðið að gera lýðháskóla að viðurkenndum valkosti í menntakerfinu sem njóti lagalegrar umgjarðar og opinbers stuðnings, eins og segir í inngangi greinargerðarinnar með tillögunni. Samkvæmt henni er ráðherra falið að leggja fram frumvarp í síðasta lagi á vorþingi 2017. Sú tímasetning hefur ekki staðist en vinna við samningu frumvarpsins til laga um lýðháskóla fer fram í ráðuneytinu um þessar mundir.

Starfshópurinn sem skipuleggi stofnun lýðháskóla á Laugarvatni skal fylgjast með samningu löggjafar um lýðháskóla og taka mið af henni í vinnu sinni. Mikilvægt er að öll sú vinna falli saman.

Við höfum einhverja reynslu af rekstri lýðháskóla hér á landi og langar mig til að nefna skólann LungA sem var stofnaður á Seyðisfirði 2013 og er starfræktur þar. Það hefur verið gríðarlega gaman að fá að fylgjast með því hvernig til hefur tekist. Skólinn hefur verið rekinn á styrkjum frá opinberum aðilum og einkaaðilum, auk þess sem nemendur greiða skólagjöld. Í skólanum er lögð áhersla á sjálfsskoðun í gegnum listir og skapandi vinnu.

Óhætt er að fullyrða að þar hefur farið fram mikið og gott starf. Sú starfsemi hefur litað samfélagið, nemendurnir koma þangað inn og setja mark sitt á samfélagið, sem er jákvætt því að það eykur mannlífsflóruna á stöðunum þar sem skólarnir eru. Ég reikna með að slíkt hafi líka gerst á Flateyri þar sem lýðháskóli hóf störf haustið 2018. Námið þar er sett fram á aðeins annan máta en í LungA, þó ekki svo ólíkan. Í boði eru tvær ólíkar námsleiðir sem hvor um sig taka að hámarki 20 nemendur. Önnur námsleiðin byggist á styrkleikum staðarins, þ.e. samfélagi, náttúru og menningu, en hin námsleiðin byggist á hugmyndavinnu og sköpun. Skólinn nýtir vannýtt húsnæði í þorpinu fyrir starfsemi sína.

Þetta held ég að sé mjög jákvæð innspýting fyrir samfélagið á staðnum og jákvætt að fá að sjá það gerast. Við tölum oft um skólamálin sem afmarkaðan þátt en auðvitað tengist þetta allt saman. Eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á tengist það bæði byggðamálum og atvinnumálum. Slíkri starfsemi fylgja störf, það þarf ákveðið utanumhald og nokkur störf fylgja því. Það er okkur dýrmætt þegar við tölum um atvinnumálin úti um landið. Svo eru það byggðamálin. Við aukum fjölbreytni starfa, við stækkum atvinnusvæðið og svo opnum við kannski líka augu ungmenna fyrir því að til eru staðir sem þau hefðu ekki heimsótt ef skólarnir væru ekki þar. Það hefur jafnvel orðið til þess að fólk hefur sest að á stöðunum. Þetta hefur opnað leiðir fyrir fólk og hugmyndir hafa kviknað varðandi eitthvað sem fólk vissi hreinlega ekki að væri til. Það er svo merkilegt að veröld okkar flestra er í rauninni óskaplega lítil og því er þetta mjög jákvætt.

Það kemur líka fram að UMFÍ leggi áherslu á að hlutirnir gerist í réttri röð og að lagaumgjörðin sé fyrsta skrefið, eins og ég vék að áðan. Áhugi hefur verið á stofnun lýðháskóla á Laugarvatni með aðkomu menntamálayfirvalda og Bláskógabyggðar. UMFÍ hefur nú þegar myndað samstarfsteymi við lýðháskóla í Danmörku sem er tilbúinn til að leggja sitt af mörkum í undirbúningi og framkvæmd, enda er rík hefð fyrir lýðháskólum í Danmörku og víðar á Norðurlöndum og ekki óeðlilegt að við horfum til fyrirmynda þangað og vinnum út frá því sem menn hafa góða reynslu af þar.

UMFÍ hefur rekið ungmennabúðir á Laugum í Sælingsdal til fjölda ára. Við foreldrar þeirra mörgu barna sem hafa farið þangað þekkjum að góð reynsla er af því starfi. Þar dvelja skólahópar, börn í 9. bekk, í tæplega viku með kennurum og eru um leið tekin út úr venjubundnu umhverfi sínu. Mjög eftirsótt hefur verið að komast á þennan stað og er ánægjulegt að hitta börnin eftir tæplega vikudvöl. Lögð hefur verið áhersla á félagsfærni, útivist og upplifun án nútímatæknibúnaðar, sem er töluverð áskorun fyrir nútímabörn og hefðu mörg okkar fullorðnu jafnvel gott af því að reyna það. Þarna eru öll verkefni unnin í óformlegu námi, rétt eins og í lýðháskólum.

Það sem ég vil helst leggja áherslu á í máli mínu, um leið og ég fagna framkomu málsins, er fjölbreytileiki í skólum. Við þurfum að hafa ákveðinn sveigjanleika. Við vitum alltaf að það er ákveðinn hópur sem hefur ekki fundið fjölina sína en er stútfullur af hæfileikum. Einstaklingarnir hafa kannski einhvern ákveðinn ramma, ákveðið tímabil og þá opnast tækifæri.

Mig langar að nefna Húsmæðraskólann á Hallormsstað, ég get eiginlega ekki orða bundist. Þar hefur verið rekið gríðarlega merkilegt og gott starf og þangað inn hefur komið fólk á ýmsum aldri. Ég held að mér sé óhætt að segja að færustu kokkar landsins hafa átt viðkomu þar, þannig að það hefur sannarlega ekki spillt fyrir þeim. Það liggja víða þræðir.

Helstu kostir lýðháskólanna eru að þar unnið út frá öðrum áherslum og markmiðum en viðgengst í hefðbundnum bók- og verknámsskólum. Mikil áhersla er lögð á mannrækt, sjálfsrækt og virka þátttöku nemenda. Þetta held ég að sé gríðarlega mikilvægt af því að það er að vaxa upp allt of stór hópur fólks sem aldrei hefur tekið þátt í neinu félagsstarfi, ekki verið í neinni sjálfboðavinnu, sem þekkir ekki þetta félagsform. Ég held að það geti verið gríðarlega gott að fá að koma á svona stað, upplifa ákveðið samfélag, vera þátttakandi í því að reka heimili, hugsa um sig sjálfur og taka tillit til annarra í öðru umhverfi en því sem fólk er vant dagsdaglega. Kannski væri ágætt fyrir okkur öll að fá að prófa það.

Eins og kemur fram í greinargerðinni er lýðháskóli góð millilending fyrir nemendur sem vita ekki í hvaða átt þeir vilja stefna og fyrir ungt fólk sem hefur flosnað upp úr námi. Við þekkjum mjög vel að það hefur hjálpað mörgum, eins og hefur margkomið fram í dag, en svo getur vel verið að það henti einhverjum að koma við í slíkum skóla sem verður þá varða á leiðinni eitthvert annað, sama hvernig aðstæður eru. Þær þurfa ekkert endilega að vera þannig að fólk sé í einhverjum vandræðum.

Ég held að tillagan sé mjög góð og vil þakka 1. flutningsmanni fyrir að leggja málið fram. Ég held að það sé gott skref til að auka flóruna í skólakerfinu hjá okkur. Eins og fram kemur um áhrif þess að fara í lýðháskóla hefur vera í lýðháskóla marktæk jákvæð áhrif í tengslum við brottfall úr námi. Það er alvarleg staða sem við stöndum frammi fyrir og þó að við næðum við ekki nema því markmiði væri það mjög dýrmætt.