149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

31. mál
[18:45]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Það snýr að því, eins og segir hér, að tjúgufáni skuli dreginn á stöng alla daga ársins á Alþingishúsinu, Stjórnarráðshúsinu og byggingu Hæstaréttar Íslands kl. 8 að morgni og vera við hún til kl. 21 að kvöldi. Fáni forseta Íslands skal dreginn á stöng við embættisbústað hans og við skrifstofu hans í Reykjavík á sama tíma og vera jafn lengi við hún. Þessa fána skal lýsa upp í skammdeginu.

Þetta er ágætismál. Það er verið að auka notkunina á fánanum. Það er líka gott að þetta er örugglega atvinnuskapandi. Þegar fánar eru uppi alla daga í veðráttunni á Íslandi þarf oft að skipta því að ekki viljum við nota slitna, ónýta og óhreina fána. Það er alveg prýðilegt.

Það er hins vegar alltaf matsatriði hvenær á að lýsa upp og hvenær er skammdegi, en flest vitum við nokkurn veginn hvenær virðist vera orðið myrkur. Það er líka hægt að hafa nema, það hefur virkað ágætlega. En ég kem hingað upp af því að þetta er svo gott mál. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir viðlíka máli í mörg ár og haft talsmenn í því þannig að ég get ekki annað en tekið aðeins þátt í þessari umræðu. Hún snerist líka um það hvenær hann ætti að vera flóðlýstur og hvenær ekki og hvernig það á allt saman að vera. Þetta eru allt óskaplega svipuð mál og mig rekur ekki minni til þess í ljósi umræðunnar sem var hér í dag hvort haft hafi verið samband við flutningsmenn Framsóknarflokksins sem voru með þetta mál. Ég þori ekkert að fullyrða um það.

Hér er gott framsóknarmál á ferðinni og ég fagna því og treysti að við getum rætt málið á breiðum grundvelli. Öll erum við áfram um að ganga vel um fánann okkar og virða hann.