149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Hæstv. forseti. 1. desember árið 1918 markaði upphaf þess að Ísland yrði frjálst og fullvalda ríki — og varð það þann dag. Ég flyt hér framsögu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, um lögbundna frídaga. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Páll Jónsson. Þetta frumvarp var áður flutt á 148. löggjafarþingi en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Frumvarpstextinn er mjög knappur og mig langar til að lesa hann, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir í 1. gr.:

„Í stað orðanna „og 17. júní“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: 17. júní og 1. desember.“

2. gr. hljóðar svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og ég sagði áðan markaði 1. desember árið 1918 upphaf þess að Ísland varð fullvalda og frjálst ríki. Þannig er að margir hafa haldið því fram að sá dagur, þ.e. 1. desember árið 1918, hafi í sjálfu sér verið miklu stærra skref fyrir Ísland í sjálfstæðisbaráttunni en 17. júní 1944. 17. júní 1944 var í sjálfu sér rökrétt framhald vegna þess að sá dagur og það upphaf var í sjálfu sér inni í þeim samningi sem við þegar fullgiltum þarna 1918.

Það vill þannig til að í áranna rás hefur þessa dags ekki verið minnst af myndugleik og ekki verið almennur frídagur í mjög langan tíma. Ég man reyndar ekki hvenær það féll niður. Háskóli Íslands og stúdentar hafa haldið heiðri þessa dags á lofti og upp á síðkastið hefur háskólinn lagt sérstaka áherslu á þá sem hafa hlotið doktorsnafnbót og koma saman á þessum degi.

Allt þetta ár hafa verið hundruð atburða til að minnast þess að í ár eru 100 ár liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Það var markmið þeirra sem höfðu umsjón með hátíðarhöldum eða skipulögðu þau — sett var sérstök nefnd á vegum Alþingis um þessi hátíðarhöld — að sjá um þau hátíðarhöld sem almenningur hefur komið að og tekið þátt í og unnið að. Hins vegar sá Alþingi sjálft um skipulagningu og framkvæmd þingfundar 18. júlí sl. og síðan mun ríkisstjórn Íslands standa að hátíðarhöldum 1. desember nk.

Á þessu ári sem er að líða hafa, eins og ég sagði áðan, hundruð atburða átt sér stað úti um allt land. Þeir hafa tekist gríðarlega vel allir, sem þessi nefnd kom að. Tugþúsundir Íslendinga, ef ekki fleiri, hafa notið þessara viðburða. Þeir hafa átt sér stað, stórir og smáir, bæði sjálfsprottnir og styrktir af nefndinni, í nánast öllum héruðum landsins. Það er náttúrlega mjög vel að svo skyldi haga til um þetta.

Það er kannski annað sem vakir fyrir þeim sem flytja þetta frumvarp. Það er í fyrsta lagi að þessa dags, þ.e. 1. desember, sé minnst með þeim hætti sem hann á skilið. Og nú að loknu afmælisárinu er í sjálfu sér kannski ekki mjög margt sem minnir á að þessi hátíð var haldin. Það er að vísu búið að gefa út, og það má ekki gera lítið úr því, Íslendingasögur í hátíðarútgáfu. Síðan verða gefnar út bækur sem eru um aðdraganda 1. desember 1918. Vonandi verða þær til þess að uppfræða almenning, ef við getum orðað það þannig, um mikilvægi þessa dags og þeirra atburða sem leiddu til þess að hann var haldinn hátíðlegur á sínum tíma.

Okkur flutningsmönnum finnst það því eiginlega liggja beint við að 1. desember ár hvert eigi að vera almennur frídagur þannig að við getum öll saman rifjað upp þennan viðburð, til hvers hann var og hvað dagurinn merkir. Okkur finnst að við í sjálfu sér skuldum þeim sem stóðu í fararbrjósti á þessum árum og fram til þessa dags, 1. desember 1918, minningu þeirra og framlagi, að þess sé minnst með veglegum hætti ár hvert. Því er þetta frumvarp lagt fram.

Í greinargerð segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, er nú, auk helgidaga þjóðkirkjunnar, sérstaklega kveðið á um fjóra heila frídaga: sumardaginn fyrsta, fyrsta mánudag í ágúst (frídag verslunarmanna), 1. maí (baráttudag verkalýðsins) og þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní.

Að mati okkar flutningsmanna hefur enginn þessara daga haft í för með sér jafnmiklar grundvallarbreytingar á sögu og lífi íslensku þjóðarinnar og fullveldisdagurinn 1. desember 1918, dagurinn sem markaði fullnaðarsigur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.“

Þess vegna er það nú að við leggjum áherslu á að þessi dagur verði almennur frídagur.

Á sínum tíma, þegar þetta mál var flutt síðast, man ég eftir því að menn voru uppi með vangaveltur um það hvort þetta væri inngrip í samninga milli aðila vinnumarkaðarins. Ég get í sjálfu sér ekki tekið undir það. Alþingi er á hverjum tíma að gera alls konar breytingar sem varða aðila vinnumarkaðarins með einum eða öðrum hætti, miklum eða litlum eftir atvikum, og þeir aðilar hafa einfaldlega tekið þeim lagabreytingum og unnið úr þeim sín á milli. Í sjálfu sér finnst mér ekki að Alþingi Íslendinga eigi að spyrja svokallaða aðila vinnumarkaðarins hvort Alþingi vill setja lög eða breyta lögum í þá átt að frídögum verði fjölgað um þennan eina, heldur sé það einfaldlega verkefni aðilanna að vinna úr þeim breytingum sem þetta frumvarp, verði það að lögum, hefur í för með sér.

Það er líka hægt að segja að þarna gefist mjög gott tækifæri, verði frumvarpið að lögum og 1. desember verði almennur frídagur, fyrir fjölskyldur til að vera saman einn dag og rifja upp sjálfstæðisbaráttuna, hvað hún hefur haft í för með sér. Í sjálfu sér má segja að það sé ómælt ævintýri hvernig þessi þjóð hefur brotist fram frá örbirgð til auðlegðar á þeim 100 árum sem eru að verða liðin frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Það er í sjálfu sér brýn og mikil ástæða til að fagna því alveg sérstaklega að þessi áfangi skyldi nást á þessum tíma.

Ég vona að þetta mál eigi greiða leið í gegnum þingið vegna þess að við höfum enn tímann fyrir okkur, þar sem segir í 2. gr. að lögin öðlist þegar gildi. Við erum búin að sýna það undanfarið að við getum hrist fram úr erminni lög á einum degi ef okkur sýnist svo. Ég er nú ekkert að mæla með því í þessu tilfelli því að auðvitað viljum við að vandað sé til lagasetningar. En við höfum samt sem áður tíma til þess að gera þetta frumvarp að lögum áður en 1. desember árið 2018 rennur upp, áður en fullveldið okkar verður fullra 100 ára.

Ég skora á þingheim að taka nú við þessu máli þannig að unnt verði að gera það. Við höfum tæpan mánuð til stefnu til þess að þetta verði að veruleika. Ég held að það væri í sjálfu sér mjög viðeigandi endir, ef ég get orðað það þannig, á þessu afmælisári, sem hefur verið svo hátíðlegt í flesta staði, að við gætum gert að verkum að þessa dags verði héðan í frá minnst með þeim sóma sem hann á skilið með því að gera hann að almennum frídegi á Íslandi.