149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku. Í þessu tilfelli er um að ræða að setja 1. desember inn sem almennan frídag. Í greinargerðinni er vísað í það mat flutningsmanna að fáir eða enginn af þeim dögum sem eru taldir upp í þessum lögum hafi haft jafn mikil áhrif á sögu og líf íslensku þjóðarinnar og fullveldisdagurinn okkar, 1. desember. Ég get algjörlega tekið undir það.

Þegar ég fór aðeins að leita á vefnum sá ég einhverja grein þess efnis að þetta hefði löngum verið frídagur og því var kennt um að verkalýðshreyfingin hefði á sínum tíma samið hann frá sér. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, virðulegur forseti, en verð að segja að mér finnst standa mjög góð og gild menningarleg rök til þess að 1. desember sé almennur frídagur og svo finnst mér líka bara mjög gaman að frídögum þannig að mér finnst allt í lagi að bæta við það safn.

Ég tek samt alveg undir þau sjónarmið sem komu fram í andsvari áðan frá Óla Birni Kárasyni um kostnað sem því kann að fylgja. Hér er um að ræða þingmannafrumvarp eins og eru gjarnan lögð hér fram en í því er ekkert kostnaðarmat eins og við gerum oft kröfur um í frumvörpum, þá stjórnarfrumvörpum, þannig að það væri eðlilegt að setjast yfir það. Bæði er þetta kostnaður fyrir atvinnulífið og ekki síður fyrir ríkið sjálft sem stendur fyrir allt of umfangsmikilli atvinnustarfsemi og því ljóst að með slíkri breytingu myndi kostnaðurinn á ýmsum opinberum stofnunum aukast eitthvað með samþykkt þessarar tillögu.

En það er ekki langt síðan við ræddum í þessum þingsal breytingu á nákvæmlega sömu lögum. Þá gekk það frumvarp, sem ég held að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson hafi mælt fyrir fyrir hönd Pírata, út á að breyta þessum lögum, nr. 88/1971, í lög um 38 stunda, (Gripið fram í: 35.) 36? (Gripið fram í: 35.) — 35 stunda vinnuviku, já, sem sagt að stytta vinnuvikuna. Ég tók líka til máls í þeirri umræðu og finnst mjög spennandi að stytta vinnuvikuna en það eru samt ýmsir annmarkar á því, þá kannski ekki síst það að mér finnst að við í þessum sal eigum ekki að skipta okkur svo mikið af því sem er að gerast úti á hinum almenna vinnumarkaði og mér finnst eðlilegt að aðilar vinnumarkaðarins fái tækifæri til að semja um þætti eins og lengd vinnuvikunnar.

Í þeirri umræðu fór ég að lesa í gegnum þau ágætu lög sem hér um ræðir. Þau eru ekkert mjög löng, bara frekar einföld, og mörg ákvæðin eru um að hægt sé að semja sig frá hinu og þessu. Þegar ég les þennan lagabálk velti ég fyrir mér hvort þörf sé fyrir þessi lög í lagasafninu okkar eða hvort við gætum hreinlega afnumið þau. Við erum með fína vinnuverndarlöggjöf sem tekur á ýmsum þáttum þarna og svo eru aðrir þættir sem heyra að mínu mati undir samninga á vinnumarkaði og kjarasamninga.

En þá stendur eftir 6. gr. þar sem fjallað er um frídagana og það er það sem þetta frumvarp gengur út á. Þá er vísað í að frídagar séu helgidagar þjóðkirkjunnar. Við eigum sem sagt líka lagasafn um helgidagafrið þar sem helgidagar þjóðkirkjunnar eru tilgreindir sérstaklega. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur boðað breytingar á þeim lögum og ég hlakka bæði til að sjá hvernig þær líta út og taka þátt í umræðu um það mál.

Ásamt helgidögum erum við núna að tala um sumardaginn fyrsta, 17. júní og svo aðfangadag jóla og gamlársdag frá kl. 13. Ég sagði í umræðunni í síðustu viku, og ætla að fá að endurtaka það, að mér finnst það t.d. algjör fásinna. Í mínum huga eru aðfangadagur jóla og gamlársdagur mjög hátíðlegir dagar, mikilvægir dagar í hátíðahaldi og dagar sem fjölskyldan heldur upp á. Það að gera hann að hátíðardegi frá kl. 13 finnst mér bara svolítið asnalegt, mér finnst að hann ætti að vera almennur hátíðardagur. Í þeim tilfellum þar sem fólk neyðist til að vinna, sem betur fer þurfa fæstir að gera það, það er helst í verslun og þjónustu, er bara eðlilegt að greitt sé fyrir það yfirvinnukaup. En það er líka nokkuð sem ætti að semja um á almennum vinnumarkaði.

Mig langaði að kasta einu inn í umræðuna, ég ítreka að mér finnst mörg rök hníga að því að það sé eðlilegt að 1. desember sé skilgreindur sem hátíðardagur, en í umræðu um þennan lagabálk hef ég farið að velta fyrir mér hvort kannski væri ástæða til að afnema lögin í heild sinni og gera breytingu á lögum um helgidaga þjóðkirkjunnar þannig að í staðinn yrðu bara til einföld lög um almenna frídaga. Þá gætum við sett inn þá frídaga sem þegar eru skilgreindir í þessum lögum, og full ástæða til að skoða 1. desember jafnframt í þeim efnum, og hætta að tilgreina þar helgidaga þjóðkirkjuna sem ég held samt að séu mjög mikilvægir. Ég ítreka að ég ber mikla virðingu fyrir þjóðkirkjunni, mér finnst hún spila stórt hlutverk í menningu okkar og vil veg hennar sem mestan, en ég átta mig á því að ákveðin gagnrýni á það hlutverk er alltaf að aukast og kannski væri bara ástæða til að tala sérstaklega um þessa daga sem skilgreindir hafa verið sem helgidagar þjóðkirkjunnar sem almenna frídaga á Íslandi þar sem allir geti notið þess að vera í fríi og með sínum nánustu, óháð því hver trú þeirra er eða hvort þeir tilheyra þjóðkirkjunni og vilja halda upp á það sem dagurinn upphaflega varð til út af.

Mig langaði að varpa þessu inn í umræðuna. Hver veit nema ég boði einhver frumvörp í þessa átt þegar ég sé hvað verður um það frumvarp sem hér um ræðir, sérstaklega varðandi 1. desember. Svo langar mig bara til að hvetja aðila á vinnumarkaði til að taka þessi mál upp í þeim umræðum sem þar eru undir þessa dagana. Það er mikið talað um álag á vinnumarkaði og álag á fjölskyldur og að fólk vinni of mikið. Ég held að umræða um frídaga sé sterkt innlegg í þá umræðu og að hún eigi líka að eiga sér stað einmitt á meðal aðila vinnumarkaðarins.