149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:25]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara að gera stutta athugasemd. Þó að ég sé að mestu sammála ræðu hv. þingmanns fannst mér vanta eitt inn í þetta. Þó svo að það væri vissulega rétt og gagnlegt að færa helgidaga þjóðkirkjunnar og almenna frídaga undir eina samræmda löggjöf, sem myndi taka á þessu almennt, held ég að það sé ástæða til þess að bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika gagnvart fólki sem hefur önnur trúarbrögð en kristni, t.d. eru trúarhátíðir hjá múslimum tvær aðalhátíðir, Eid al-Adha og Eid al-Fitr, sem ber upp á mismunandi tíma. Auðvitað myndi fólk gjarnan vilja getað tekið sér frí á þeim dögum.

Þarna er ákveðið tækifæri, ef við myndum líta á einhverja af þessum dögum, eins og 17. júní og 1. desember — mér finnst tillagan í sjálfu sér mjög góð — sem nokkurs konar þjóðlega frídaga sem við neglum niður, en leyfum síðan ákveðna aðra frídaga, t.d. aðfangadag og jóladag, sem sumir halda upp á. Ég er ekki trúaður en ég held svo sem upp á þessa daga með fjölskyldunni, en sumir gætu viljað vinna þessa daga og ráðstafa þeim frídögum á öðrum tíma.

Það væri áhugavert að heyra frá hv. þingmanni hvort einhvers konar svona fyrirkomulag sem kæmi til móts við mismunandi menningarheima, mismunandi trúarkenningar, mismunandi lífsskoðun, gæti hugsast.