149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

40 stunda vinnuvika.

33. mál
[19:29]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er svo sem alltaf ákveðið vandamál, að reyna að stemma af það sem er rótgróið í menningu annars vegar og þar sem einhverjar breytingar eiga sér stað á samsetningu samfélagsins hins vegar. Þetta er auðvitað annað dæmi um það.

Ég held að það væri óráðlegt, alla vega í bili, að breyta fyrirkomulagi skólahalds og álíka. En það að búa til einhvers konar svigrúm, kannski að það séu einhvers konar trúarlegir kvótadagar eins og mér skilst að sé fyrirkomulagið á Indlandi, þar eru bara ákveðnir trúarlegir kvótadagar sem eru frídagar og svo máttu ráðstafa þeim að vild. Þetta er náttúrlega alveg bráðnauðsynlegt þar, fremur en víða annars staðar, vegna þess hversu ótrúlega margir trúarlegir hátíðisdagar eru til staðar og fjölbreytt trúarbrögð.

En sem trúlaus maður get ég bara vera í fríi hvenær sem er og alveg til í það.