149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

upplýsingar um afdrif Hauks Hilmarssonar.

[10:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Forseti. Íslenskur ríkisborgari, Haukur Hilmarsson, er talinn hafa fallið í Afrín í Sýrlandi í febrúar sl. Hann var í Afrín einhvern tíma á undan, en Tyrkir hafa farið með yfirráð á svæðinu sem síðast er vitað af honum á frá 24. febrúar, reyndar fyrst FSA og liðsmenn íslamska ríkisins í umboði Tyrkja og Tyrkir sjálfir. Þetta er frekar lítið svæði, aðeins þrír til fjórir ferkílómetrar, hæðir á milli þorpanna Badína og Dumilya, og þar virðist engin raunveruleg byggð, aðeins ein bygging og milli þorpanna er aðeins um hálftímagangur — þetta er ekki þannig séð erfitt svæði landfræðilega.

Í maí sl. staðfesti tyrkneska lögreglan það við íslensku lögregluna að Haukur væri látinn og komið hefur fram að utanríkisráðuneytið hefur einnig fengið það staðfest frá tyrkneskum stjórnvöldum. Samkvæmt alþjóðalögum ber Tyrkjum að veita upplýsingar um afdrif þeirra sem þeir fella í stríðsátökum sem þessum. Íslenska ríkið sem og aðstandendur Hauks eiga rétt á að vita hvað hefur orðið um Hauk.

Fjölskylda Hauks hefur ekki fengið skýr svör um hvað hefur orðið um hann eða líkamsleifar hans. Einhver hlýtur samt að vita það. Það er afar ólíklegt að Tyrkir, sem hafa farið með yfirráð á svæðinu síðustu mánuði, viti ekki hvað varð um þá sem féllu í árásunum 24. febrúar. Hafa íslensk stjórnvöld spurt tyrknesk stjórnvöld beint hvað hafi orðið um líkamsleifar þeirra sem féllu í árásunum 24. febrúar sl.? Þegar ég segi beint á ég við ekki við hvort rætt hafi verið við sendiráð Tyrkja í Ósló eða aðrar diplómatískar leiðir notaðar heldur hvort utanríkisráðherra sjálfur hafi beitt sér sérstaklega og krafist svara frá tyrkneskum stjórnvöldum um afdrif Hauks Hilmarssonar. Hefur ráðherrann krafist þess að farið verði inn á svæði þar sem átökin voru og þeirra sem þar féllu leitað?