149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

drengir í vanda.

[11:55]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. málshefjanda sem hér talaði síðastur og þakka fyrir ágæta umræðu. Það sem ég tek út úr henni er í fyrsta lagi að þegar við mótum stefnu í málefnum barna og ungmenna, sama af hvaða kyni þau eru, þurfum við að byggja á staðreyndum. Það er mjög mikilvægt að gögnum og rannsóknum sé safnað saman á einn stað því eins og ég fór yfir mínu fyrra innleggi er mjög margt sem bendir til þess að ýmis vandamál birtist með mismunandi hætti hjá drengjum og stúlkum. Þá er mikilvægt að við bregðumst líka við með mismunandi hætti. Það er eitt af því sem við þurfum að draga út úr þessari umræðu.

Í öðru lagi vil ég segja að það skiptir náttúrlega mjög miklu máli í málefnum barna og ungmenna að við horfum á þau heildstætt, hvort sem er í heilbrigðiskerfinu, ég nefndi geðheilbrigðismálin sérstaklega, eða í skólakerfinu og þar skiptir máli hvað er verið að gera til að bæta lesskilning og fleira, en ekki síður hvað foreldrarnir gera. Ég vil nefna að það er margt sem bendir til þess að stúlkur nái fyrr valdi á tungumálinu en drengir. Það kann að vera að erfðafræðilegir þættir ráði þar för eða þeir þættir að foreldrar tali meira við stúlkur en drengi. Það skiptir auðvitað máli í þessu máli þegar við hugum að líðan barna og ungmenna að við getum ekki bara horft á kerfið sem slíkt, við verðum líka að skoða hvað við erum að gera sem fjölskyldur og fólk. Samvera barna og ungmenna og foreldra er auðvitað mikilvægasta forvarnatækið sem við eigum, hvort sem við erum að tala um andlega vanlíðan, áfengis- og vímuefnanotkun eða hvað þar er undir. Það er auðvitað áhyggjuefni þegar við sjáum t.d. fréttir sem ég hef gert að umtalsefni hér í þessum sal um að sú þróun hafi orðið ljós í Þýskalandi í sumar að fleiri börn og ungmenni hafi drukknað en nokkru sinni fyrr vegna þess að foreldrar þeirra voru önnum kafnir í símanum. Við verðum líka að horfa til þessarar þróunar.

Ég vil að lokum segja að það sem ég tek líka út úr þessari umræðu er að við búum öll í kynjakerfi. Það er talað öðruvísi um karla en konur. Það getur birst með mismunandi hætti gagnvart körlum og konum. (Forseti hringir.) Um konur er oft talað eins og strengjabrúður sem aldrei taki sjálfstæðar ákvarðanir. (Forseti hringir.) Til karla eru gerðar aðrar kröfur og til þeirra talað með öðruvísi neikvæðum hætti en til kvenna.(Forseti hringir.) En við töpum öll á þessu kynjakerfi. Við töpum öll á því, bæði karlar og konur.