149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

tekjuskattur og stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

301. mál
[12:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að við þurfum líka að vera með fjölbreytta flóru úrræða og það teygir sig yfir allt sviðið. Tekjuskattsprósentan skiptir máli. Tryggingagjaldið, launatengd gjöld, skipta máli. Í þessu samhengi skiptir máli stuðningur Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs. Við höfum verið að efla þessa sjóði. Þeir hafa sannað gildi sitt og eru til vitnis um að það eru fleiri úrræði en endurgreiðslur á rannsóknum og þróun sem koma til álita.

Ég nefndi hér áðan afslátt vegna tekjuskatts fyrir sérfræðinga sem eru að flytja í fyrsta skipti til landsins. Við höfum líka verið að gera breytingar á breytanlegum skuldabréfum, á skattalegri meðferð þeirra, líka kaupréttarsamningum. Við breyttum skattlagningu þeirra, við breyttum tímasetningu skattlagningarinnar. Fleira mætti telja til.

Í nýju frumvarpi um þjóðarsjóð, sem liggur nú frammi í samráðsgáttinni, er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir því að við getum varið á fimm ára tímabili allt að 10 milljörðum til viðbótar í (Forseti hringir.) einhvers konar úrræði, fjölbreytt, samkvæmt (Forseti hringir.) síðari ákvörðun um það til að gera enn betur.