149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

fjármálafyrirtæki.

303. mál
[13:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka að mér finnst meira en sjálfsagt að hlustað sé eftir sjónarmiðum úr greininni, þá er ég að vísa til endurskoðenda, en sömuleiðis sjónarmiðum fjármálafyrirtækja sem reglurnar taka til. Við höfum reynslu af því að það getur verið snúið að treysta eingöngu á þetta ytra eftirlit. Þess vegna er búið að sauma inn í lög og reglur um starfsemi fjármálafyrirtækja skyldu fyrirtækjanna sjálfra til að leggja mat á áhættu í eigin rekstri. Það á sér stað í skýrslugjöf til stjórnvalda um margvíslega áhættuþætti í rekstrinum. Það er sem sagt lögð kvöð á fyrirtækin til þess að eiga frumkvæði að eigin áhættumati og skýrslugjöf til eftirlitsaðilans en ekki bara látið við það sitja að leggja í hendur eftirlitsaðilans að kalla eftir upplýsingum sem eru taldar mikilvægar á hverjum tíma. Við erum að feta okkur sífellt lengra eftir þessari slóð, að láta ekki við það sitja að ytri eftirlitsaðili horfi yfir sviðið heldur að það sé lifandi samtal fyrirtækjanna, og í þessu tilviki líka endurskoðendafyrirtækjanna, við eftirlitsaðila til þess að okkur yfirsjáist ekki einhver áhætta sem getur bitnað á almenningi og atvinnurekstri í landinu.

Mér finnst margt benda til þess að okkur hafi tekist að stórauka öryggi og draga úr áhættu með fjölþættum breytingum á undanförnum árum. Það er í sjálfu sér mikið fagnaðarefni og vonandi til þess fallið að auka traust almennt séð á fjármálakerfinu.