149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

stytting biðlista.

[15:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Samkvæmt upplýsingum sem sá sem hér stendur hefur aflað hjá landlækni bíða nú rúmlega 2.300 manns eftir ýmsum aðgerðum, þar af 1.200 sem hafa beðið lengur en í þrjá mánuði. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hefur verið hjá meðferðarstofnunum kemur í ljós að rúmlega 1.600 manns bíða eftir meðferð þar. Þetta er u.þ.b. 4.000 manna hópur sem bíður eftir nauðsynlegum aðgerðum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvaða tillögur hún hafi núna uppi við 2. umr. fjárlaga sem gætu orðið til að stytta þessa biðlista. Og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi gert sér í hugarlund hvað það kosti, fyrir utan þjáninguna og óþægindin, að hafa 1.200 manns á biðlistum í meira en þrjá mánuði, á verkjalyfjum og öðru.

Um 1.000 manns bíða núna eftir liðskiptaaðgerðum sem eru algengar aðgerðir og þeir sem hafa beðið lengur en í þrjá mánuði eru 700 og eiga þá væntanlega rétt á að ferðast til útlanda og fá aðgerðir gerðar þar ef ekki er hægt að liðsinna þeim hér heima. Það hefur komið fram að ódýrara sé að gera slíkar aðgerðir á einkaklíník sem er til í Reykjavík. Það væri hægt að stytta þessa biðlista umtalsvert með því að hleypa þeim læknum sem þar eru að því að gera þessar aðgerðir.

Þess má geta líka að af þessum aðgerðum, mjaðma- og hnéaðgerðum, var 100 frestað á síðasta ári út af bráðatilvikum sem er náttúrlega mjög skiljanlegt því að Landspítali – háskólasjúkrahús er bráðasjúkrahús.

Mig langar að heyra hvaða tillögur hæstv. ráðherra hefur uppi núna við 2. umr. fjárlaga sem gætu orðið til þess að stytta þessa biðlista og takmarka þjáningar fólks.