149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

svar við fyrirspurn.

[15:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka forseta kærlega fyrir kennslustundina. Unglingnum þykir vænt um þegar reynsluboltinn kennir þingsköp og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig á þinginu. Það er þó eitt sem vekur undrun og það er þetta með skýrslur. Þegar um er að ræða skýrslubeiðni sem t.d. Ríkisendurskoðun er falið að vinna þá hættir Ríkisendurskoðun ekki störfum eða stöðvar framkvæmd á milli þinga heldur heldur áfram. Ég veit að við erum að fá inn skýrslur sem beðið var um á síðasta löggjafarþingi.

Ég veit að sá þingmaður sem hafði frumkvæði að þeirri skýrslubeiðni fékk mjög misvísandi skilaboð um það hvort þyrfti að fara aftur og biðja um þá skýrslu eða ekki, þó að vinnan við þá skýrslu hjá Ríkisendurskoðun væri langt komin. Það virðist því vera sem skilaboð sem koma frá skrifstofu forseta séu mjög misvísandi hvað þetta varðar.