149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

lækkun krónunnar.

[15:19]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þriðjudagurinn 13. var vondur dagur. Ekki nóg með að ríkisstjórnarflokkarnir hafi fundið hin breiðu bök öryrkja og aldraðra heldur hrundi blessaða krónan okkar aftur.

En hvað þýðir það þegar krónan fellur? Það þýðir að krónan verður minna virði, rýrari. Í kjólinn fyrir jólin, virðist vera markmið krónunnar, en 15% gengisfelling eins og nú hefur átt sér stað þýðir líka að allar innfluttar vörur hækka í verði um 15%. Um 1/3 af beinum útgjöldum okkar er vegna innfluttra vara og 15% gengisfelling þýðir 4–6% verðbólgu, sem síðan hækkar verðtryggð lán heimilanna.

Nú hefur fjármálaráðherra ítrekað svarað svona vangaveltum þannig að það sé bara ágætt að krónan geti lækkað í verði, krónan sé svo sniðugt hagstjórnartæki.

Gott og vel, gengisfelling getur verið ágæt fyrir stórútgerðina og erlenda ferðamenn en hún er ekki góð fyrir almenning því að hún rýrir pening venjulegra fjölskyldna og færir þá til útgerðarinnar og rútufyrirtækja.

Gengisfelling getur líka verið ágæt fyrir þá sem eiga mikla fjármuni og skulda lítið. Það að fá hækkun vaxta, sem eru bara verð á peningum, og hækkun á verðtryggðum eignum getur hreint út sagt verið happdrættisvinningur fyrir eignafólk í landinu.

Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sérstaklega í ljósi þess: Hvernig ætlar hann að hækka einungis laun og bætur til öryrkja og aldraðra um rúm 3 prósentustig, eins og fjárlagafrumvarp hans gerir ráð fyrir, á sama tíma og væntanleg verðbólga vegna gengisfellingarinnar hefur nú þegar étið þau 3 prósentustig hans upp með bestu lyst?