149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

lækkun krónunnar.

[15:23]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Tölum aðeins um öryrkja. Það er fullkomlega óskiljanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli taka pólitíska ákvörðun um að öryrkjar af öllum hópum skuli nú taka á sig niðurskurð frá því sem hafði verið boðað. Í fjárlagafrumvarpi þessa ráðherra, sem er einungis tveggja mánaða gamalt, var beinlínis gert ráð fyrir 4 milljarða kr. raunaukningu til öryrkja á næsta ári sem var ekki mikið fyrir og hefði einungis dugað fyrir einum þriðja af því sem kostar að afnema krónu á móti krónu.

Með einu pennastriki í gær verða þessir 4 milljarðar að 2,9 milljörðum. Þetta stendur svart á hvítu í plöggum ráðherrans. Annað er fullkominn útúrsnúningur og blekkingaleikur ráðherrans í anda Yes, Prime Minister-þáttanna.

Herra forseti. Það er fáheyrt að leggja til svona lækkun til öryrkja á milli umræðna um fjárlög og taki einhvern tíma að ljúka við kerfisbreytingar er lítið mál að láta þær gilda afturvirkt. (Forseti hringir.) Er það oft gert, síðast þegar laun þingmanna voru hækkuð.