149. löggjafarþing — 31. fundur,  14. nóv. 2018.

fasteignalán til neytenda.

135. mál
[19:26]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016, og eftirstöðvar í kjölfar nauðungarsölu.

Ég kem hér upp til að fagna frumvarpinu. Einhverra hluta vegna hefur það farist fyrir að ég sé meðflutningsmaður á málinu. Ég taldi mig hafa sagt já við þeirri beiðni. En gott og vel, ég lýsi því hér með yfir í pontu að ég er mjög fylgjandi þessu frumvarpi.

Eins og komið hefur fram í ræðum hefur þetta frumvarp í raun verið flutt nánast óbreytt, eða mjög svipað, fimm sinnum áður. Ég vil þakka hv. flutningsmanni, Ólafi Ísleifssyni, fyrir að leggja það fram.

Fram hafa komið rök í fyrri ræðum fyrir því að þetta frumvarp sé nauðsynlegt í ljósi sögunnar. Við munum hvað gerðist þegar efnahagshrunið dundi yfir okkur; verðbólgan fór upp úr öllu valdi, verðtryggð lán margfölduðu sig og fólk lenti í miklum vandræðum og missti húsnæði sitt. Eins og fram kom í ræðum flutningsmanna áðan misstu 10% landsmanna heimili sitt og var fólk síðan elt með kröfur eftir að hafa misst heimili sín. Þetta hefur gerst gerst áður í sögunni við sveiflur í efnahagskerfinu en einhvern veginn tókst ekki á þessum árum að ná saman um að bregðast við því þó að þessi frumvörp hefðu verið lögð fram hvað eftir annað. Því tel ég mjög brýnt nú að við komum málinu áfram og náum að samþykkja það, komum því í gegnum þingið til þess að stoppa í þetta gat.

Eins og fram kemur í frumvarpinu hjálpar þetta líka lánastofnunum til að vanda sig betur í gerð lánasamninga. Það er allt of mikil lenska í lánasamningum að skuldari er eiginlega veðsettur sjálfur og allt það sem hann tekur sér fyrir hendur. Þó að búið sé að bjóða upp allt ofan af honum þá er hann eltur. Það er það sem kallað hefur verið eftir að verði lagað. Þetta frumvarp, verði það að lögum, myndi hjálpa lánastofnunum til að vanda sig betur við gerð lánasamninga svo áhættan væri í raun og veru beggja aðila. Fólk myndi verða óhræddara við að fara út í fasteignakaup með það að leiðarljósi að hægt væri að treysta beggja megin frá.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Það er eiginlega allt komið fram í ræðum hér á undan sem ég hefði viljað segja um málið. Þetta er stórt mál fyrir fyrir almenning og fyrir fjármálakerfið vegna þess að það hjálpar lánastofnunum að vanda sig betur og koma með nýju hugarfari að lánasamningum, eins og margoft hefur komið fram.

Ég óska þess, eins og fleiri ræðumenn á undan mér, að þetta mál fái jákvæða og góða afgreiðslu í gegnum þingið og verði að lögum. Þá trúi ég því að við eigum bjartari framtíð fyrir okkur í þessum málum, því að þetta er náttúrlega ein stærsta fjárfesting sem flestir fara út í á lífsleiðinni, að kaupa sér húsnæði. Þá þarf sú umgjörð að vera vönduð.

Að því sögðu ætla ég að þakka fyrir mig þannig að þetta frumvarp verði að lögum sem fyrst.