149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:31]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar svarið sem ég er mjög ánægður með.

Ég vil víkja að öðru máli. Fram kemur í ríkisreikningi fyrir árið 2017 að ríkisendurskoðandi lætur ekki í ljós álit á ríkisreikningnum og ber fyrir sig að ekki hafi tekist að innleiða nauðsynlegar breytingar sem hann álítur nauðsynlegar. Svo virðist sem endurskoðaður ríkisreikningur berist Alþingi í fyrsta lagi árið 2020 vegna ársins 2019, takist að ljúka fyrrgreindri innleiðingu samkvæmt áætlun.

Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það sé í fyrsta lagi óviðunandi aðstaða að ríkisreikningur sé án álits? Og í öðru lagi, er hv. þingmaður ekki sammála mér um að nauðsynlegt sé að efna til funda og samráðs um þá stöðu sem upp er komin og leiðir til að bæta úr?

Ríkisreikningur felur í sér upplýsingar um lögþvingaða skattheimtu og ráðstöfun hennar. Þingheimur og allur almenningur á rétt á að framsetning á upplýsingum (Forseti hringir.) um þessi efni sé hafin yfir allan vafa.