149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tillögurnar eru nokkuð skýrar á skattahliðinni. Það er talað um 26 milljarða í nýja skatta og gjöld og því til viðbótar er lagst gegn lækkun og afnámi bankaskattsins og það bætast þá 7 milljarðar við. 26 plús 7 eru 33 milljarðar. Þetta eru ný gjöld sem eru tekin úr hagkerfinu sem verða þá ekki í vinnu til að skapa þar störf og auka umsvif.

Og menn segja: Það er ekkert mál að taka meira af ferðaþjónustunni. Hver er staðan í ferðaþjónustunni í dag? Gengur vel? Berjast menn í bökkum? Hvernig ganga veitingastaðir í miðborginni? Mér sýnist að þeir séu margir að fara á hausinn. Bíddu, af hverju hækka menn ekki bara gjaldið á ferðamennina? Af hverju hækka menn ekki gjaldið t.d. á bílaleigubíla eða hótelreikningana eða þjónustuna í borginni? Hvers vegna hækka menn það ekki? Það er vegna þess að það er ekki svigrúm. Þeir sem eru með taprekstur eða engan afgang myndu undir venjulegum kringumstæðum, ef það væri svigrúm, hækka gjöldin. En þá kemur hv. þingmaður og segir: Ja, það er ekki vandamál, við skulum bara auka skattheimtuna af því sama fólki, nýjan skatt á ferðaþjónustuna, komum aftur með sykurskattinn, sem mun engu breyta í neysluvenjum, ekki frekar en síðast. Hann mun hækka matvöru, hann mun hækka verðlag. Að hækka skatta endalaust (Forseti hringir.) eru einu hugmyndirnar sem menn hafa úr þessari átt.