149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með leyfi forseta, hérna stendur um framhaldsskóla:

„Fjárheimildir haldast nær óbreyttar á milli fjárlagaára og er heildarfjárheimildin rúmlega 31 milljarður kr.“

Hvaðan kemur þetta? Úr nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar sem samflokksmaður hæstv. fjármálaráðherra skrifar.

Lítum á töfluna á blaðsíðu 140. Það er lækkun í framhaldsskóla, lítil lækkun, ég veit það, en lækkun engu að síður.

Ég er mjög hrifinn af Hans Rosling. Ég fór á fyrirlestur þegar hann var í Hörpu og annað slíkt.

Mér leiðist að rífast um tölur, en allt í lagi, það er hluti af þessu. Þetta er einfaldlega ekki sú stórsókn sem var lofað. Því var lofað að peningarnir myndu haldast en þeir gera það ekki einu sinni. Hver er viðbótin? Ég veit að fjárframlög á nemanda hafa hækkað en því var ekki lofað heldur að framhaldsskólastigið fengi innspýtingu annars vegar og að styttingarpeningunum yrði haldið hins vegar. Við það er ekki staðið.