149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvernig vildi ég gera þetta öðruvísi? Ég talaði heilan klukkutíma áðan um hvernig ég vildi gera þetta, það fór heill klukkutími í það. Ég hef talað fyrir 17 breytingartillögum sem Samfylkingin leggur áherslu á. Gjöld og tekjur, eintómt svartnætti. Á sumum sviðum er það þegar hjúkrunarheimili koma til fjárlaganefndar og tala um að taka þurfi út lambakjötið á sunnudögum, skera niður mat á jólum. Það finnst mér mjög dökk mynd, hv. þingmaður.

Mér finnst líka mjög dökk mynd þegar heilbrigðisstofnanir úti á landi vantar 800 milljónir til að sinna grunnþjónustu, þær fá 0 frá hv. þingmanni og kollegum hans í nefndinni. Landspítalinn fær ekki enn það sem hann þarf. Við mætum ekki þörfinni, hvað þá innspýtingunni sem við ætluðum að gera öll saman. Auðvitað eru fjármunir hingað og þangað, fyrr má nú vera, það eru 900 milljarðar sem fara í eitthvað. Ég átta mig á því. Ég er að draga fram veikleika frumvarpsins, ekki síst í velferðarmálum. Við erum sammála — (Forseti hringir.) nú hefur hv. þingmaður tækifæri að samþykkja 800 milljónir til heilbrigðisstofnana úti á landi (Forseti hringir.) og setja þá fjármuni í hjúkrunarheimili sem þau hafa kallað eftir. Ég hvet þingmanninn til að gera það.