149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, samstarfsmanni í hv. fjárlaganefnd, fyrir prýðisræðu. Eins og hv. þingmaður kom inn á, bæði í upphafi og lok ræðu, geymir hann frekari efnislega umræðu til seinni ræðna og var fyrst og fremst í forminu og er það vel vegna þess að við erum auðvitað alltaf að reyna að bæta verklagið.

Ég vil fyrst koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi í ræðunni þegar við tókum út nefndarálit meiri hluta. Það er rétt sem hv. þingmaður kom inn á að þar vantaði skýringartexta eða ítarlegri skýringartexta við breytingartillögur sem þó lágu fyrir og það er auðvitað mjög stór hluti af nefndarálitinu. Svo vantaði þar inn í svona kvart úr síðu í kafla um fjölskyldumál sem hafði ekki verið settur inn, en engar meginbreytingar aðrar, en endar í 16 blaðsíðum, þ.e. meginefni textans, en engar tölur. Ég vil bara koma því á framfæri, en allt rétt sem hv. þingmaður sagði. Og unnið var í því í skjalavinnslunni að koma að ítarlegri skýringartexta við allar breytingartillögur til að aðstoða þingmenn við að komast til botns í því í hvað þetta væri í raun og veru að fara og hvert peningunum er ráðstafað og með hvaða skilyrðum. Þannig að það sé sagt.

Síðan að forminu, af því að við erum sameiginlega sammála um, þ.e. nefndin, varðandi útgjaldabrúna að það er enginn annar í hv. fjárlaganefnd en hv. þingmaður betur til þess fallinn að útskýra það hvernig við gætum breytt því að forminu til í framsetningu. Bið ég hv. þingmann um að gera það.