149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni svarið og ég tek undir með hv. þingmanni um útgjaldabrúna, sem hv. þingmaður lýsti mjög vel. Ég ætlaði að draga fram þann texta sem við erum sameiginlega með í álitum meiri hluta og 2. minni hluta, en hv. þingmaður útskýrði þetta mjög vel. Og ég held að það væri líka til bóta fyrir alla þingmenn og aðra sem vilja kynna sér efni frumvarpsins og málefnasviðanna að skoða það. Þetta er mjög gagnleg framsetning. Textinn er oft fullknappur til skýringar á hinu myndræna formi. Við eigum að geta bætt úr því.

Aðeins áfram að forminu. Hv. þingmaður kom inn á fjárveitingavald Alþingis, óyggjandi, og svo framsetningu á fjármálastefnu og fjármálaáætlun og 4. gr. þar sem staðfest er að stefnan sé í samræmi við og samkvæmt grunngildum sem talin eru fram í 2. mgr. 6. gr. og svo skilyrðin í 7. gr.

Í 5. gr. laga um opinber fjármál, um fjármálaáætlun, er það svo að í ályktun Alþingis um fjármálaáætlun skal hún liggja til grundvallar fjárlagagerðinni, frumvarpinu sem við erum að ræða. Ef við fengjum skoðun hv. þingmanns á þeirri gagnrýni á ósveigjanleika afkomuskilyrða 7. gr. Gefum okkur að efnahagsspáin, sem breytti forsendum, hefði verið 1% samdráttur, þá hefðum við lent svolítið í vanda verandi í gólfi stefnunnar með 1%.